Monday, January 8, 2024

Hugsuðurnir hans Atla

Atli Harðarsson hefur nýlega skrifað tvær mjög áhugaverðar greinar á Skólaþræði, um tvo menntaheimspekinga, og hvort tveggja hugsuði sem leita í brunna meginlandsheimspeki og pragmatisma, annars vegar Gert Biesta og hins vegar Maxine Greene. Verður að segjast eins og er að þetta eru frábærar greinar sem vekja mann til umhugsunar. Það er sérstaklega gaman þegar maður rekst á hugmyndir og pælingar sem ríma við eitthvað sem hefur verið að brjótast um innan í manni lengi en maður hefur ekki getað fundið samhljóm með. 

Þessir tveir hugsuðir eru greinilega á mjög svipuðum nótum í sínum pælingum og hugmynd Biesta um "subjectification" sem markmið menntunar passar mjög vel við Greene. Hugmyndin er að menntun felist í því að nemendur uppgötvi sjálfa sig, finni sér sinn eigin stað í heiminum, að vekja þá til meðvitundar um heiminn og kveikja í þeim þrá til að móta sitt eigið líf og hugsanlega taka þátt í mótun samfélagsins líka. 

Grein Atla um Greene er líka frábær, en ég mæli líka sérstaklega með heimildamynd um Greene sem má finna á YouTube (hlekkur að neðan). Saga hennar er saga um hvernig hún berst gegn þreföldum fordómum í ferli sínum innan amerískra háskóla. Hún var kona sem átti fjölskyldu, en það þótti hin mesta furða að svoleiðis fólk ætlaði sér eitthvað í heimspeki. Hún var gyðingur, en lengi framan af ferlinum voru gyðingar útilokaðir frá störfum við margar stofnanir. Í síðasta lagi hafði hún áhuga á og skrifaði út frá meginlandshefð í heimspeki inn í heimspeki menntunar, einkum tilvistarhyggju, en kollegum hennar í amersískri heimspeki miðrar tuttugustu aldar þótti slíkt jaðra við hreinan dónaskap.

Hugmyndir Greene eru í mjög svipuðum anda og Biesta, en hennar hugmynd um kennara og menntun okkar er að til að ná því að hjálpa öðrum að finna sér stað í tilverunni þurfum við að hafa gert það sjálf. Þannig er undirbúningur kennnarans undirbúningur í hugsun og sjálfsrækt, og mikilvægt að hver og einn finni sér sína leið. Og greinarnar sem eru lang mikilvægastar í þessu samhengi eru húmanískar greinar og skapandi greinar - en það er í gegnum þær sem við náum tengslum við okkur sjálf og umheiminn. 

Grein um Biesta:  

https://skolathraedir.is/2023/12/08/ad-vakna-til-vitundar-um-bokina-world-centred-education-eftir-gert-biesta/

Grein um Maxine Greene: https://skolathraedir.is/2024/01/06/maxine-greene/

Heimildamynd um Greene: https://www.youtube.com/watch?v=36wW31VaTSk&t=2705s

No comments:

Post a Comment