Saturday, January 20, 2024

Kulnun kennara

Athugið: Þessi pistill er skrifaður fyrst og fremst frá sjónarhóli framhaldsskólakennara og er ekki byggður á rannsóknum, meira svona hráar og hressar pælingar byggðar á perónulegri reynslu og pælingum. 

Kennarastarfið er krefjandi, en líka mjög skemmtilegt, gefandi og áhugavert. Margt mæðir á okkur og getur valdið streitu. Hér falla undir erfið samskipti við nemendur, foreldra, erfiðir stjórnendur og samstarfsfólk. Ekkert af þessu eru þættir sem við getum beinínis stjórnað. Þess vegna er mikilvægt að huga að þeim þáttum í starfinu sem við getum stjórnað og reyna að tryggja að þeir valdi ekki streitu ofan á það sem ekki verður við ráðið. 


Þegar kemur að því að skipuleggja kennslu, velja námsefni og skipuleggja námsmat er ákaflega mikilvægt að kennarar hafi í huga andlega sjálfsvörn og standi vörð um tíma sinn. Frelsi kennara í starfi er mjög mikið og við erum okkar eigin helstu óvinir í því að búa til of mikið vinnuálag. Jafnframt eru margir kennarar sem koma sér upp ósiðum eins og að vinna á síðkvöldum og um helgar. Það er mjög gott að geta sveigt tímann að eigin þörfum en hér þarf að stíga mjög varlega til jarðar. Þegar nýir kennarar koma til starfa er mikilvægt að þeir velji sér góðar fyrirmyndir í þessu sambandi. Vinnan við undirbúning, yfirferð og allt er meiri í upphafi ferils, en mikilvægt að taka strax skýra ákvörðun um hvert metnaðarstigið á að vera. Í mínum huga er til dæmis mun mikilvægara að vera vel upplagður og úthvíldur í kennslu heldur en að svipta sig nætursvefni til að nemendur fái ritgerð degi eða tveimur fyrr til baka. 

Annað vandamál sem líka tengist þessu frelsi er freistingin til að breyta aldrei neinu. Sömu verkefnin, sömu prófin sama bókin ár eftir ár eftir ár og maður verður leiðari og leiðari og leiðari.... og þá er kannski ekki að spyrja að leikslokum. 

Listin felst þá í því að finna eðlilegt jafnvægi milli metnaðar og nýjungagirni og doða og tilbreytingaleysis. Það er líka mikilvægt að leita eftir því að fást við fleira en bara kennsluna, taka þátt í þróunarverkefnum, fara á námskeið, taka þátt í alþjóðastarfi, kynna sér og vera með í starf fagfélaga og stéttarfélagsins - innan skynsemismarka að sjálfsögðu! 

Ég nefndi erfitt samstarfsfólk hér að ofan og þetta er náttúrulega viðkvæmt mál en það getur verið að ákveðnir aðilar í kennarahópi leiði hópinn inn í öfgar í aðra hvora áttina. Þarna þarf maður sjálfur að vera á vaktinni og ef vel lætur þá ættu stjórnendur að vera það einnig en það kemur því miður fyrir að þeir séu erfiðir líka. Þá gæti verið spurning að svipast um eftir öðrum skóla eða skipta bara um starfsvettvang.... 


No comments:

Post a Comment