Saturday, July 27, 2024

Námsmat og próf 2 - smá pælingar um samræmd próf og hvort frelsið sé yndislegt

Sumarið 2024 hefur farið mikinn umræða um endurupptöku samræmdra prófa og mikið vesenast í núverandi fyrirkomulagi námsmats í grunnskólum. Sitt sýnist hverjum eins og gengur, og eins og oft áður endar minn ágæti vinnustaður, Versló, milli tannanna á fólki í þessu samhengi, en það er nú bara eitthvað sem venst eins og hvað annað. 

Eins og ég hef nú að ég held fjallað um annars staðar þá held ég að of lítið af prófum sé ekki vandamál í íslenskum skólum, heldur frekar alveg þveröfugt. Málið er hins vegar það að við erum með mikinn fjölda prófa með tiltölulega lítið vægi í hverju prófi en hins vegar ekki með stór lokapróf þar sem mikið er undir. Grunnurinn að hugsuninni sem þarna er á ferðinni hefur verið kalla símat og ég held að áfangakerfið sem liggur til grundvallar í framhaldsskólum sé undirrótin að þessari þróun og hafi sú hugmyndafræði smitað niður í amk. efstu bekki grunnskóla. Í þessu kerfi er sú pæling alsráðandi að allt sem gert er sé metið og nemandinn er þannig í stöðugri mælingu. Líkja má nemandanum í þessu kerfi við sjúkling á gjörgæslu þar sem öll lífsmörk eru stöðugt mæld í rauntíma. 

Áfangakerfið íslenska líkist mjög bandarískum skólum að mörgu leyti en eina landið í Evrópu sem hefur tekið upp svipaða siði er að ég held Svíþjóð. Hérlendis fylgir þessu kerfi líka mjög mikið sjálfræði kennara um marga hluti tengda mati, námsefni og kennsluaðferðum. Þetta sjálfræði er samt á vissan hátt ákveðin blekking vegna þess að innan skóla og milli kennara tíðkast víða mikil samræming sem gerir að starfið einkennist af stöðugum málamiðlunum, einkum í stærri skólum. 

Önnur kerfi sem ég þekki ágætlega eru danska kerfið og svo það enska. Grunnskóla og framhaldsskóla í Danmörku lýkur með samræmdum prófum í sjö greinum bæði munnlegum og skriflegum. Kerfið og uppleggið í kringum þessi próf er mjög flókið og metnaðarfullt. Kennnarar eru skipaðir sem prófdómarar í skriflegum og munnlegum prófum, ferðast landshluta á milli og er þetta flókin, vel skipulögð og öguð framkvæmd - og alveg rándýr. (https://www.borger.dk/skole-og-uddannelse/Folkeskolen-privatskoler-efterskoler/Bedoemmelse-og-evaluering/test-og-meddelelsesbog)

Enska kerfið er um margt ekki alveg ólíkt því danska, þar lýkur lýka bæði grunn og framhaldsskóla með stórum samræmdum prófum, svokölluðum GCSE og A-level prófum. Kerfið þar er miðstýrt eins og það danska, en munurinn sá að það eru ekki munnleg próf og prófin koma utanað og eru skrifuð og metinn af utanaðkomandi sérfræðingum en ekki starfandi kennurum. (https://en.wikipedia.org/wiki/GCSE).

Hvorugu þessara landa dettur í hug að hafa próf bara í þremur greinum líkt og við höfum tíðkað, en svo ég rifji upp líkinguna við sjúkrahúsið, þá má segja að nemendur mæti þá í grúndíga skoðun á nokkurra ára fresti en sleppi við að vera með blóðþrýstingmælin fastan á sér alla daga. 

Þar sem ég hef reynslu af því að vera nemandi í enska kerfinu (að vísu mun eldri útgáfu) og kennari í danska kerfinu þá sé ég á þessu kosti og lesti. Þar sem dönskum tekst að hafa prófin þannig að þau eru ekki algjörlega múlbundin einstökum smáatriðum í yfirferð og námsefni þá virkar það smá öfugsnúið en prófin frelsa kennarana til að vera sjálfstæðari í vali á námsefni og vinnubrögðum. Mig grunar sterklega að svipað gildi í grunnskólanum líka. Spurningin "er þetta til prófs" eða "hvað gildir þetta" er óþekkt. Varðandi enska kerfið þar sem efnið og uppleggið fyrir prófin liggja eru mjög stýrandi fyrir kennarann. Það liggur fyrir að ákveðin klasi af efni sé til prófs, og það er vitað nákvæmlega hvernig prófið verður og þannig eru enskir kennarar frekar heftir í starfi virðist mér. Hins vegar má líka segja að efnið og skipulagið sem lagt er upp er hannað af sérfræðingum og alls ekki svo galið að mörgu leyti. Tími sem fer hjá íslenskum kennurum í að leggja línurnar um námsmat, námsefni og svo framvegis með kollegum og að sama skapi hjá dönskum er tími sem enski kennarinn getur lagt í eitthvað annað. Kannski er frelsið ekki endilega alltaf yndislegt, eða hvað? 

Annað atriði sem ég held að skipti samt máli er að þegar það er stórt utanaðkomandi próf eins og hjá enskum og dönskum þá getur kennarinn myndað ákveðna samstöðu með nemendum gagnvart hinum utanaðkomandi óvini. Kennarinn hefur þá mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna og er ekki í þeirri erfiðu stöðu að eiga að vera hvort tveggja í senn sáluhjálpari, uppfræðari og sú sem ákveður hvort Sigga litla kemst í Versló eða ekki. Þetta eru ekki rök í sjálfu sér með upptöku samræmdra prófa, en hins vegar gefur þetta ákveðið drama og lit í tilveruna sem vantar aðeins í okkar kerfi sem er óneitanlega frekar svona rúðustrikað og færibandalegt.

Ef það á að taka upp eitthvað svona kerfi og gera þannig að vit sé í krefst það mikils undirbúnings, yfirlegu og gríðarlegra fjármuna. Að klastra saman einhverjum rafrænum krossaprófum í tveimur eða þremur námsgreinum og setja það í hendurnar á einhverjum örfáum sérfræðingum að semja og græja og gera þá er það umtalsvert verr af stað farið en heima setið. Að mínu mati væri kannski gaman að taka saman einhvera tölu um það hvað almennilegt svona kerfi myndi kosta og setja þá peninga svo í að stórefla kennslu í skapandi greinum og íþróttum, nú eða til að hækka laun kennara, tja, kannski til að tryggja til langframa að enginn nemenadi eða kennari starfi í heilsuspillandi umhverfi vegna myglu, efla íslenskukennslu fyrir nýja íslendinga eða hvað veit ég. Ég held að listinn af því sem mætti setja fé í í menntakerfinu sem myndi skila einhverju fallegra og betra en að hlunkast af stað með þessi próf aftur sé mjög langur. 

Og í blálokin: það gæti verið pæling að taka upp siði danskra með að notast meira við munnleg próf, það er virkilegt stuð og stemming að vera með í svoleiðis seremóníum. 

 


Thursday, May 30, 2024

Námsmat og próf - próflaust Ísland 2030

Þessi póstur er innblásinn af þræði um meintan hóp sem starfar að því að útrýma prófum á Íslandi sem er nú líklega ekki til. Hér koma nokkrar óábyrgar hráar og hressar pælingar um þetta mál. 

Námsmat er mikilvægur, en þó hugsanlega ofmetinn, þáttur í starfi kennara og skólakerfa. Mín skoðun er mjög einlæglega sú að helsta markmið mitt í starfi er að mennta. Sem enskukennari hef ég það að leiðarhnoði að nemendur mínir fari frá mér örlítið betri í ensku en þau komu til mín, en líka kannski og vonandi með aðeins dýpri lífskilning og hafi tileinkað sér leiðir til að læra meira og útvíkka heimsýn sína, svona í stuttu máli kannski. 

Mér hefur alltaf leiðst próf og námsmat frekar mikið, en ég virði algjörlega að próf og mat af ýmsu tagi er hluti af menntunarferlinu. Þau geta verið þáttur í samstarfi kennara og nemenda á vegferð menntunarinnar, þau hvetja báða aðila í samstarfinu til að brýna ákveðna þætti námsins og hjálpa manni að átta sig á stöðu mála. Í áfangakerfinu sem er kerfið sem er mér tamast þá á þetta kannski fyrst og fremst við um skyndipróf, en í stórum greinum þar sem teknir eru margir áfangar gildir í rauninni svipað um lokapróf. Allt námsmatið í þessu kerfi eru vörður á leið - og í ákveðnum skilningi er það viss blekking að líta svo á að það sé einhver róttækur munur á símats og lokaprófsáföngum; áfangakerfið er í eðli sínu símatskerfi. Verulega leiðinleg aukaverkun af þessu er sú undarlega ranghugmynd að hvert snifsi sem kemur við sögu í náminu þurfi að "meta" og að nemendur gera aldrei neitt nema það sem "gildir" eitthvað.  Hversu marktækt matið er sem einhvers konar mæling á framgangi nemandans er svo spurning. Íslenskir kennarar eru í mjög djúpum skilningi beggja vegna borðsins, yfir því og undir.  

Ég held reyndar að kjarni málsins í hinum meinta prófahaturshópi sé deilan um samalræmdu prófin sem lauk fyrir nokkru með því að þau próf voru lögð niður. Þetta gerir að íslenska skólakerfið er mjög óvenjulegt á heimsvísu í því að hvorki grunnskóla né framhaldsskóla lýkur á einhverjum samræmdum landsprófum. Þetta gerir okkar kerfi mjög róttækt og áhugavert. 

Ég hef nú fengið reynslu af að kenna í kerfi með samræmdu lokaprófi, þeas. að kenna ensku til dansks stúdentsprófs. Ég hef líka reynslu af að vera nemandi íí A-level námi í breska skólakerfinu, sem lýkur líka með stórum samræmdum prófum. Kostur við slík kerfi er að það myndast smábandalag milli nemenda og kennara gagnvart hjallanum framundan, sem er prófið. Kennarinn getur verið gagnrýninn á fyrirkomulag prófsins, en sagt, tja svona er þetta bara. Kennarinn er líka með ákveðinn metnað fyrir gengi nemenda sinna í prófunum sem er öðruvísi en þegar maður býr prófið til sjálfur. Aðkoma ytri aðila að námsmatinu er líka til þess fallið að hækka metnaðarstig. Próf sem eru samin af sérfræðingum og hönnuð til að mæla ákveðna þekkingu verða svo náttúrulega líka óhjákvæmilega vandaðri en 100 próf samin af hverjum einasta kennara í viðkomandi grein. Helsta gagnrýni á samræmd próf er oft að þau leiði til að allir séu að gera það sama, en það þarf ekki endilega að vera svo: próf geta verið gerð þannig úr garði að þau endurspegli sjálfstæð vinnubrögð nemenda og kennara en mæli líka þekkingu. Annar kostur við prófin er líka ákveðinn hátíðleiki, það er ákveðin reisn yfir danska kerfinu þar sem þú stígur út úr síðasta prófinu og setur upp húfuna. En útfærsla á svona kerfi er ekki hent upp á einni nóttu og ef þetta á að vera vel gert þarf að setja mikla vinnu og mikla fjármuni í það, vinna og fjármunir sem ég myndi hiklaust telja að frá menntunarsjónarmiði sé betur varið í annað. 

Ég held að við séum á mjög góðu róli að mörgu leyti í íslenska skólakerfinu og ég myndi ekki vilja endurvekja samræmdu prófin í þeirri mynd sem þau voru. Ég held hins vegar að það gæti verið mjög áhugavert að hækka metnaðarstigið í námsmati í framhaldsskólum og einn fídus í því gæti verið aukið samstarf milli skóla, td. þannig að lokaprófið í tiltekinni grein í Versló væri samið og framkvæmt af kennurum úr FB og sett upp einhver svona keðja - ekkert endilega alltaf, en stundum, td. dregnar út 2 greinar og X margir skólar sem ættu að vinna saman að namsmati árlega.... 

Leiðin sem væri áhugaverðust að mínu mati hafandi skrifað allt þetta hér að ofan væri einfaldlega að hætta einkunnagjöf eins og hún er núna, bara útskrifa fólk eftir að hafa dvalið í skóla um skeið með stúdentspróf og treysta því áfram. það væri hægt að veita viðurkenningar fyrir einvherja mjög töff hluti sem einhver hefði gert eða eitthvað, en kannski jafnvel óþarfi. Leiðin til að falla í slíku kerfi væri einfaldlega eins og í vinnu, ef þú sinnir ekki starfinu, mætir ekki eða ert með leiðindi ertu bara látin fara. 


Thursday, February 15, 2024

Skóli eftir máli

Ég hlustaði á frábært viðtal við Harald Sigurðsson, skipulagsfræðing í Víðsjá nýlega, sem má finna hér. Viðtalið erum um bók hans Samfélag eftir máli, og virkilega áhugavert að heyra hvernig hann tengir titilinn við sögu Svövu Jakobsdóttur, Eldhús eftir máli.

Harladur tengir pælingar sínar og rannsóknir í skipulagsfræðum við verk Jane Jacobs  sem er mikilvægur hugsuður á þessu sviði, en ég þekki hana og hennar verk í gegnum skrif James C. Scott sem spinnur út frá hugmyndum Jacobs í bók sinni Seeing like a State, sem er mikið merkisverk. Rauði þráðurinn í þessum pælingum er djúpstæður and-módernismi og ímugustur á allri ofskipulagningu, svæðisskiptingu og tilraunum til að byggja skipulag á einhverjum mælingum og hugmyndum sérfræðinga um hvernig mannlífi sé best hagað. Eins og ég skil Harald, Jacobs og Scott er mikilvægt að hafa í huga hvað fólkið sjálft vill og leyfa hlutum að þróast aðeins í rólegheitum af sjálfu sér. Blanda alskonar starfsemi í hverfum, hafa fjölbreyttar byggingar og byggingarefni, blanda saman samfélags, aldurshópum o.s.frv. 

Skólinn er svo sannarlega skóli eftir máli og kassalögun og rúðustrikun menntakerfisins svo gott sem algjör. Takið eftir að niðurbrot tímans í stundatöflu og niðurbrot rýmisins í skólastofur og ganga er nánast hliðstætt. 







Vissulega eru til dæmi um alskonar tilbrigði, en ég hef heimsótt mikinn fjölda skóla í Evrópu og nokkra í Bandaríkjunum og þetta grunnform í nálgun á tíma og rúm er algjörlega dómínerandi alstaðar. 

Þessi nálgun er mér algjörlega eðlileg og runnin í merg og bein, og svo á við um nánast um alla, og að láta sér detta í hug að hægt væri að gera þetta einhvern veginn öðruvísi virðist fjarsæðukennt. Ef maður hugsar út í að hugmyndin að baki hönnuninni á skólahúsnæðinu og stundatöflunni byggir á einhverjum mannanna verkum og væntanlega einhverjum misgóðum mælingum fyrri tíma þá kannski gæti maður aðeins farið að hnikla brýrnar og enn frekar ef farið er að velta fyrir sér að þetta fyrirbæri sem við erum öll látin ganga í gegnum (bókstaflega) er ekkert svo sérstaklega gamalt (ekki frekar en t.d. hinn heittelskaði einkabíll).

Í háskólum samtímans og framhaldsskólum Íslands hefur svo mælistikunni og ferköntuninni verið brugðið á viðfangsefnin í þessum kössum í tíma og rúmi sem skólakerfið býður upp á, í formi svokallaðra "eininga" og "áfanga". Hér er um að ræða hugsmíð sem bútar niður þekkingu í rafsuðu, dönsku og heimspeki í hluta sem séu með einhverjum hætti sambærilegar. Þetta er nokkuð dularfull pæling, en þó hugmyndin sé frekar ung er hún þegar orðin mörgum mjög töm og þykir allt að því dónalegt að brydda upp á að eitthvað sé athugavert við hana. 

Við þessu má bregðast með að segja að það þurfi að hafa skipulag á hlutunum, og vissulega þarf stað og tíma til að læra og svo að hafa einhver verkfæri til að átta sig á hvort fólk kunni hluti eða ekki. Mér finnst samt hæpið að sú niðurstaða sem altumlykjandi staðlar samtímans byggja á að það hljóti að vera þannig að öll viðfangsefni fyrir alla hópa lærist best svona. Gæti aldursblöndun átt við stundum? Er gott að vera stundum einn með sjálfum sér? Gæti verið gott að fá að vera í friði með jafningjum sínum í meira en korter milli kennslustunda? Getur verið að maður læri betur ef maður þarf ekki stöðugt að vera með það bakvið eyrað að einhver sé með augu og eyru á öllu sem maður gerir? Er það kannski möguleiki að það sem henti og hentaði mér, henti þér kannski ekki? 

Ég er ekki að mæla fyrir einhverri alsherjar byltingu, enda það síðasta sem þarf eitthvað nýtt "átak" enda er ég málsvari "átaks gegn átökum". Ég held hins vegar að í rólegheitum væri frábært að gefa meira rými fyrir fjölbreytni, bæði að skólar almennt taki að auka fjölbreytni í sínum störfum, að tilraunaskólar og prógrömm af ýmsu taki fái að blómstra, að fólki gefist raunverulegt tækifæri til að prófa sig áfram og gera tilraunir með heimaskólun og afskólun og svo framvegis, að kannski verði til skólar sem hafi mýkri, sveigðari og meira flæðandi nálgun .... þróunin í þá átt verður hins vegar að vera mjúk, sveigð og flæðandi og án alls æsings .... 



Saturday, January 20, 2024

Kulnun kennara

Athugið: Þessi pistill er skrifaður fyrst og fremst frá sjónarhóli framhaldsskólakennara og er ekki byggður á rannsóknum, meira svona hráar og hressar pælingar byggðar á perónulegri reynslu og pælingum. 

Kennarastarfið er krefjandi, en líka mjög skemmtilegt, gefandi og áhugavert. Margt mæðir á okkur og getur valdið streitu. Hér falla undir erfið samskipti við nemendur, foreldra, erfiðir stjórnendur og samstarfsfólk. Ekkert af þessu eru þættir sem við getum beinínis stjórnað. Þess vegna er mikilvægt að huga að þeim þáttum í starfinu sem við getum stjórnað og reyna að tryggja að þeir valdi ekki streitu ofan á það sem ekki verður við ráðið. 


Þegar kemur að því að skipuleggja kennslu, velja námsefni og skipuleggja námsmat er ákaflega mikilvægt að kennarar hafi í huga andlega sjálfsvörn og standi vörð um tíma sinn. Frelsi kennara í starfi er mjög mikið og við erum okkar eigin helstu óvinir í því að búa til of mikið vinnuálag. Jafnframt eru margir kennarar sem koma sér upp ósiðum eins og að vinna á síðkvöldum og um helgar. Það er mjög gott að geta sveigt tímann að eigin þörfum en hér þarf að stíga mjög varlega til jarðar. Þegar nýir kennarar koma til starfa er mikilvægt að þeir velji sér góðar fyrirmyndir í þessu sambandi. Vinnan við undirbúning, yfirferð og allt er meiri í upphafi ferils, en mikilvægt að taka strax skýra ákvörðun um hvert metnaðarstigið á að vera. Í mínum huga er til dæmis mun mikilvægara að vera vel upplagður og úthvíldur í kennslu heldur en að svipta sig nætursvefni til að nemendur fái ritgerð degi eða tveimur fyrr til baka. 

Annað vandamál sem líka tengist þessu frelsi er freistingin til að breyta aldrei neinu. Sömu verkefnin, sömu prófin sama bókin ár eftir ár eftir ár og maður verður leiðari og leiðari og leiðari.... og þá er kannski ekki að spyrja að leikslokum. 

Listin felst þá í því að finna eðlilegt jafnvægi milli metnaðar og nýjungagirni og doða og tilbreytingaleysis. Það er líka mikilvægt að leita eftir því að fást við fleira en bara kennsluna, taka þátt í þróunarverkefnum, fara á námskeið, taka þátt í alþjóðastarfi, kynna sér og vera með í starf fagfélaga og stéttarfélagsins - innan skynsemismarka að sjálfsögðu! 

Ég nefndi erfitt samstarfsfólk hér að ofan og þetta er náttúrulega viðkvæmt mál en það getur verið að ákveðnir aðilar í kennarahópi leiði hópinn inn í öfgar í aðra hvora áttina. Þarna þarf maður sjálfur að vera á vaktinni og ef vel lætur þá ættu stjórnendur að vera það einnig en það kemur því miður fyrir að þeir séu erfiðir líka. Þá gæti verið spurning að svipast um eftir öðrum skóla eða skipta bara um starfsvettvang.... 


Monday, January 8, 2024

Hugsuðurnir hans Atla

Atli Harðarsson hefur nýlega skrifað tvær mjög áhugaverðar greinar á Skólaþræði, um tvo menntaheimspekinga, og hvort tveggja hugsuði sem leita í brunna meginlandsheimspeki og pragmatisma, annars vegar Gert Biesta og hins vegar Maxine Greene. Verður að segjast eins og er að þetta eru frábærar greinar sem vekja mann til umhugsunar. Það er sérstaklega gaman þegar maður rekst á hugmyndir og pælingar sem ríma við eitthvað sem hefur verið að brjótast um innan í manni lengi en maður hefur ekki getað fundið samhljóm með. 

Þessir tveir hugsuðir eru greinilega á mjög svipuðum nótum í sínum pælingum og hugmynd Biesta um "subjectification" sem markmið menntunar passar mjög vel við Greene. Hugmyndin er að menntun felist í því að nemendur uppgötvi sjálfa sig, finni sér sinn eigin stað í heiminum, að vekja þá til meðvitundar um heiminn og kveikja í þeim þrá til að móta sitt eigið líf og hugsanlega taka þátt í mótun samfélagsins líka. 

Grein Atla um Greene er líka frábær, en ég mæli líka sérstaklega með heimildamynd um Greene sem má finna á YouTube (hlekkur að neðan). Saga hennar er saga um hvernig hún berst gegn þreföldum fordómum í ferli sínum innan amerískra háskóla. Hún var kona sem átti fjölskyldu, en það þótti hin mesta furða að svoleiðis fólk ætlaði sér eitthvað í heimspeki. Hún var gyðingur, en lengi framan af ferlinum voru gyðingar útilokaðir frá störfum við margar stofnanir. Í síðasta lagi hafði hún áhuga á og skrifaði út frá meginlandshefð í heimspeki inn í heimspeki menntunar, einkum tilvistarhyggju, en kollegum hennar í amersískri heimspeki miðrar tuttugustu aldar þótti slíkt jaðra við hreinan dónaskap.

Hugmyndir Greene eru í mjög svipuðum anda og Biesta, en hennar hugmynd um kennara og menntun okkar er að til að ná því að hjálpa öðrum að finna sér stað í tilverunni þurfum við að hafa gert það sjálf. Þannig er undirbúningur kennnarans undirbúningur í hugsun og sjálfsrækt, og mikilvægt að hver og einn finni sér sína leið. Og greinarnar sem eru lang mikilvægastar í þessu samhengi eru húmanískar greinar og skapandi greinar - en það er í gegnum þær sem við náum tengslum við okkur sjálf og umheiminn. 

Grein um Biesta:  

https://skolathraedir.is/2023/12/08/ad-vakna-til-vitundar-um-bokina-world-centred-education-eftir-gert-biesta/

Grein um Maxine Greene: https://skolathraedir.is/2024/01/06/maxine-greene/

Heimildamynd um Greene: https://www.youtube.com/watch?v=36wW31VaTSk&t=2705s