Það er gaman að fólk hafi áhuga á skóla og menntamálum, og sérstaklega áhugavert þegar það hefur sterkar skoðanir. Ólafur Stefánsson, þekktur sem handboltamaður hefur verið mjög gangrýninn á skólakerfið, telur það stíft og ekki hafa breyst í takt við tímann. Hann var í slagtogi við listamanninn skondna og skemmtilega Þorvald Þorsteinsson með þessar pælingar um skeið, en Þorvaldur lést því miður fyrir aldur fram. Voru þeir ef ég man rétt með einhverjar rosalegar pælingar um að stofna e.k. frískóla í Heilsuverndarstöðinni - endilega rifjið þetta upp fyrir mér.
Nýjasta útgáfa gagnrýni Óla birtist í áhugaverða viðtali við Sölva Tryggvason sem fylgir hér að neðan. Eins og títt er með listamenn, heimspekinga og sjáendur þarf að leggjast í smá túlkunarvinnu til að skilja mál Óla. Hann er ekki sérstaklega skýr í tali og notar mikið af ensku.
Aðaltesan sem hann er með er að yfir öllu skólakerfinu vomi skrímsli. Þetta skrímsli er Aðalnámskrá. Kenningin er á þá lund að undir harðræði Aðalnámskrár leiti allt skólastarf í sama farveg og meðan að ægivald hennar ríkir yfir okkur þá verði frelsi, sköpun og allt sem er gott og fallegt undir í skólum landsins. Í máli þeirra félaga Óla og Sölva finnst mér reyndar fátt benda til að þeir, frekar en flestir kennarar eða fólk almennt hafi lesið Aðalnámskrána sem í gildi er; en rödd Aðalnámskrár er ekki endilega mikið skírari en rödd Ólafs og þarf líka túlkunarfærni til að skilja hana.
Ég held samt að hugmynd Óla um Aðalnámskra megi túlka sem myndlíkingu fyrir ákveðna rödd og afl sem hafi mikil áhrif í skólastarfi. Hér er einhvers konar blanda af vana, íhaldsemi og ótta við breytingar sem mætti líta á sem einhvers konar yfirsjálf sem stýrir okkur með ósýnilegri hendi. Íslenskir kennarar eru hugsa ég sú stétt veraldarinnar sem er með mest sjálfræði yfir störfum sínum, en engu að síður er töluvert mikil íhaldsemi í gangi.... áhugavert mál.
Annað sem Óli gerir sem mér finnst skondið er að hann vísar slatta í Harry Potter, segist vera með flokkunarhatt og eitthvað, en ég fæ líka á tilfinninguna að hann hafi ekki lesið bækurnar - eða þá að hann leikur sér með efnið á einhvern hátt sem að gefur þessi tilfinningu sem er þá einhvers konar öfugsnúin snilld.
Ég kýs að líta á Óla sem einhvers hliðstæðu við Lovegood feðginin í Harry Potter. Luna og Xenophilius eru með alskonar furðulegar hugmyndir sem fólk leiðir hjá sér og lítur niður á (einhvers konar hippar / nýaldarsinnar innan galdraheimsins), en svo kemur í ljós að inn á milli alskonar bulls sem þau eru með glittir í mikilvæg sannindi - t.d. hvað varðar dauðadjásnin.
Að síðustu finnst mér pælingar þeirra félaga um hugútvíkkandi jurtir og sveppi alveg magnað, og þá fattar maður hvernig allt kemur aftur og allt snýst í hringi... Óli er eiginlega handboltahippi með dellu fyrir skólaumbótum, með spennandi sveppi í hliðartöskunni.
No comments:
Post a Comment