Um þessar mundir eru krakkarnir okkar og unga fólkið að glíma við val. Tíundubekkingar eru að velja sér framhaldsskóla og nýstúdentar eru að pæla í hvað þær ætli nú eiginlega að verða þegar þeir verða stórir. Hvort tveggja eru stórar spurningar, þó sú síðari sé nú mögulega stærri.
Margan nýstúdentinn dreymir um að verða læknir. Og mörg þeirra eru tilbúin að leggja mikið á sig til að ná þessu marki, en það er hægara sagt en gert. Fáir komast að og mjög stórum hóp er vísað frá. Stór hluti, hugsanlega meirihluti, þeirra sem er vísað frá myndi örugglega ráða ágætlega við námið. Hluti þeirra sem er vísað frá fer til annarra landa til að læra læknisfræði og verða að frábærum læknum, eftir því sem ég best veit.
Annar hópur, aðeins minni, og, tja, svona aðrar týpur kannski, eru þau sem vilja verða leikarar. Þar er svipað upp á teningnum - margir verða frá að hverfa, sumir fara í nám í öðrum löndum, og geta, að því ég best veit, náð því að verða flottir leikarar - en með ærnum kostnaði og fyrirhöfn.
Yfir 500 tíundubekkinga, ár eftir ár, dreymir um að komast í skólann þar sem ég kenni, Versló. Við þurfum að vísa frá stórum hópi krakka, og meirihluti þeirra hefði án efa gengið prýðilega hjá okkur.
Það er stundum talað um að hægt sé að kjósa með fótunum. Og stundum er líka talað um að á Íslandi sé eitthvað sem er kallað lýðræði. Af hverju í ósköpunum tekur stefnumótun og útfærsla í menntamálum ekki tillit til vilja fólks? Það er ekki nokkur leið að segja að í þessum dæmum sem ég tek sé um tískufyrirbrigði að ræða. Tökum hvert dæmi fyrir sig.
Við gætum alveg menntað miklu fleiri lækna, og ég held að við ættum að mennta a.m.k. þann hóp sem fer utan til náms, og við gætum jafnvel verið land sem tæki á móti nemendum í læknisfræði. Þá væri læknaskortur úr sögunni, til lengri tíma gæti launakostnaður lækkað o.s.frv. Læknisfræði er mögnuð alhliða grein og því fleiri sem læra hana, þeim mun fjölbreytilegri og áhugaverðari rannsóknir verða stundaðar. Möguleikar á alskyns frumkvöðlastarfsemi eru endalausir, og eins og dæmin sanna reynast læknar vel í ýmsum störfum utan hefðbundinna viðfangsefna þeirra.
Að breyttu breytenda má segja það sama um leikara. Leiklistarmenntun getur nýst í skólum, í ferðaþjónustu og gert lífið fallegra og fyndnara. Kostnaðurinn við að vera með öfluga leiklistarmenntun er hverfandi (ólíkt læknisfræðinni) og hér er líka ágætur möguleiki á því að byggja upp leiklistarnám sem gæti orðið eftirsóknarvert úti í heimi. Tungumáladæmið leysum við bara. Þróun og uppbygging í kvikmynda- og þáttagerð tengist þessu svo, sem og margvíslegir möguleikar í nýjum miðlum o.s.frv.
Að framhaldsskólanum. Af hverju hefur engum dottið í hug að kannski langar þennan stóra hóp sem vísað er frá Versló á hverju ári að komast í skóla sem líkist Versló? Af hverju er það ekki kannað hvað er það sem krakkarnir sækjast eftir og pælt í að vinna með það? Öll umræða um þessi mál hefur mér þótt einkennast af hroka og ákveðnu virðingarleysi gagnvart krökkunum. "Það er bara út af félagslífinu". Bara? Félagslíf er ekki neitt bara fyrir framhaldsskólanema. Getur verið að þessa krakka langi í bekkjarskóla? Getur verið að þau sækist eftir að námið sé nokkuð krefjandi? Sækjast þau eftir að viðskiptamenntun sé hluti af stúdentsprófinu? Örugglega allt þetta og meira til, en ég held að það væri mjög til ánægjuauka í samfélaginu ef við myndum byggja stefnu á því sem fólk sækist raunverulega eftir en ekki einhverjum hugmyndum sérfræðinga eða fordómum miðaldra karla eða hvað það nú er sem ákvarðanir eru byggðar á. Mér kom í koll hugmynd um viðbragð við þessu sem væri að stofna kraftmikinn bekkjarskóla, með dassi af viðskiptamenntun, öflugu félagslífi og kalla hann Hressó.
Í öllum þessum dæmum, kannski sérstaklega læknisfræðinni, þá er það vissulega þáttur í eftirspurninni að framboðið er takmarkað. En hvaða máli skiptir það? Ef t.d. það að möguleikar á því að komast í skóla sem hefur þau gæði fram að bjóða sem við Verslo bjóðum er opnari leiðir til þess að aðsóknin að Versló, og svo Hressó líka, minnkar, og allir vilja komast í Tækniskólann eða eitthvað, þá bara skiptum við aftur um kúrs. Ef við bjóðum upp á nám í læknifræði sem fyllist ekki, þá gætum við boðið fólki frá öðrum löndum að koma og læra hjá okkur, nú eða við bara smá drögum úr framboðinu, og varðandi kostnaðinn þá efa ég það stórlega að raunverulega sé verið að spara nokkuð með því að senda stóra hópa af frábæru námsfólki til Ungverjalands til að læra læknisfræði.
Ég er ekki að tala um einhverja einfeldningslega markaðslausn hérna, heldur lýðræði sem byggir á því að velta fyrir sér raunverulegum tilhneigingum, rannsóknir á þeim (viðfangsefni fyrir félagsvísindafólk) og stefnumótun út frá því. Ég geri mér alveg grein fyrir að það eru einhverjir sem eiga ekki erindi í læknisfræði eða leiklist en langar samt, og það er alveg sjálfsagt að gera strangar kröfur. En munurinn á því að bjóða t.d. 120 pláss á ári í læknisfræði versus núverandi 60 er mjög mikill. Annað er að svona breyting verður ekki gerð á einni nóttu, en ætti að vera hluti af markvissu uppbyggingarstarfi. Hugmyndin um að valið inn í nám á borð við læknisfræði eða leiklist eins og það fer fram í samtímanum sé með einhverjum hætti öruggt, réttlát eða byggt á traustum vísindum stenst ekki nána skoðun. Að sama skapi þýðir þetta líka að draga verður úr framboði á öðru námi, sem er náttúrulega sorglegt, en þannig er nú lífið bara.
Að þessu sögðu óska ég nýstúdentum og tíunda bekkingum til hamingju með áfangann og óska þess að sem allra allra flest ykkar finnið ykkur nám og viðfangsefni sem fylla líf ykkar tilgangi og daga ykkar gleði.