Í sumar leið fór ég á tónlistarhátíðina All Tomorrows Parties og skemmti mér hið besta. Ég lét þar plata mig til að taka þátt í Pub Quiz um popp og rokktónlist og kom þá í ljós algjör vanþekking mín á málaflokknum. Ég hef annars ekki tekið þátt í slíkum uppákomum og formið vakti forvitni mína.
Í síðustu viku sló ég svo til með hópana mína í Ens103 og bjó til smá svona hópspurningakeppni úr efni kafla sem við vorum að fara í - efnislega og úr orðaforða. Ég skipti bekkjunum upp í hópa, hóparnir svara spurningum saman (og sumar spurningarnar voru níðþungar), og fara svo yfir svör hjá hvorum öðrum. Ég útbjó síðan skjal þar sem sigurhópurinn var heiðraður - og tók mynd af viðkomandi hóp, prentaði skjalið út og hengdi upp í stofunni.
Þetta reyndist mjög skemmtilegt. Nemendur eru mjög virkir og leggja sig eftir efninu og eru að pæla í því allan tímann - bæði meðan þau svara og meðan þau fara yfir. Það þarf vitaskuld að huga að því hvernig skipt er í hópa, en í svona leiki er engum stillt upp við vegg og allir ættu að eiga möguleika á að vera með í einhverjum hluta málsins.
Þetta er einn hluti af alsherjar viðleitni minni til leikvæðingar námsins og kem inn reglulega með fleira þegar ég prófa eitthvað nýtt!
No comments:
Post a Comment