Thursday, August 22, 2013

Besta skólaár mannkynssögunnar

Í nýlegri Facebook-færslu frá Nassim Taleb setur hann fram eftirfarandi hvatningu:

'Be underqualified in your hobbies and overqualified in your work'

... hann leggur út af þessu með því að velta því upp að oftast sé þessu öfugt farið í samtímanum, ég leyfi lesendum að íhuga þetta sjálfum. 

Hvað varðar kennslu setur hann fram þá pælingu að maður eigi aldrei að kenna neitt sem maður þurfi að fletta upp. Mér finnst þetta mjög flott hugmynd - og hef í rauninni svona að einhverju leyti fylgt slíkri línu í mínu starfi. Kannski myndi ég samt vilja bæta við að stundum hefði mátt fletta sumu upp í fyrsta skipti en síðan hafi það lærst við það að kenna það.....

Ég hins vegar lít svo að það sé ákveðin taugaveiklun sem fylgir því að vera stöðugt að fletta öllu upp og fara alltaf inn í kennslustofu með belti og axlabönd. Ef maður kann eitthvað á maður að hvíla öruggur í þekkingu sinni og ekki vera í sífelldu stresskasti að baktékka allt og ekkert - nú og þegar eitthvað er ekki nákvæmlega kórrétt eða gleymist þá er þar möguleiki fyrir nemendur að láta ljós sitt skína og alla hlutaðeigendur að læra af reynslunni. 

Ég vil svo líka bæta við (sem ég hef reyndar gert áður) að það sé mikilvægari undirbúningur fyrir kennslu að vera með opin huga, hressa sál, úthvíldur og tilbúinn til að vera í miklum, virkum og áhugaverðum samskiptum heldur en að hafa legið í einhverjum skruddum til að rifja efnið upp í N-ta skipti - og - mér finnst frábærar kennslustundir sem eru sterk mannleg upplifun milljón sinnum mikilvægari en öll litfögur verkefni og gagnvirk próf veraldarinnar samanlögð.

Býð svo alla kennara og nemendur velkomna til starfa á þessu nýja skólaári - sem - líkt og nýja þingið eins Óttar Proppé benti okkur á - hefur alla burði til að verða allra besta skólaár mannkynssögunnar - það er bara undir okkur komið. 

5 comments:

  1. EF maður þarf að fletta einhverju upp, þá er oftar en ekki hægt að "fletta því upp" í nemendum. Það er alltjént mín reynsla.

    ReplyDelete
  2. Bjarnheiður KristinsdóttirAugust 22, 2013 at 2:04 PM

    Ég er stöðugt að fletta einhverju upp, reyna að sjá á því nýjar hliðar og skilja betur. Þannig safna ég í sarpinn. Í stærðfræði er mikilvægt að geta útskýrt á milljón mismunandi vegu (ok, ekki alveg milljón... en þið skiljið hvað ég á við) og þar sem nemendur hafa sjaldnast heyrt eða lesið um nýju hugtökin áður en þau koma fyrir í tíma þá get ég ekki flett upp í þeirra kolli. Mér finnst það ekkert stressandi að fletta upp en hins vegar finnst mér mjög stressandi að fara í tíma og hafa ekki undirbúið mig. Vel má vera að þetta breytist síðar en ég vona samt eiginlega að svo verði ekki. Ástæðan: Mig langar ekki að verða eins og biluð plata heldur reyna að nálgast viðfangsefnið á fjölbreyttari vegu í hvert skipti.

    Ég er síðan alveg hjartanlega sammála því að það er mjög mikilvægt að vera með opinn huga, hressa sál, úthvíldur og tilbúinn að vera í miklum, virkum og áhugaverðum samskiptum. En þetta tvennt (uppflettingar og andlega hliðin) útilokar ekki hvort annað.

    ReplyDelete
  3. Takk Bjarnheiður - ég held kannski að grunnhugmyndin mín sé sú að þú hefur grunninn góðan - en svo er maður að lesa og pæla alskonar til að bæta sig - en EKKI fyrir það að maður sé á mörkunum að ráða við það sem maður er að gera - pælingin hjá Taleb er sú að altof margir séu í störfum sem þeir séu á mörkunum að ráða við. Ég er meira að velta fyrir mér að margir kennarar séu kannski miklu öflugri en þeir sjá sjálfir og noti tímann sem þeir hafi til undirbúnings ekki endilega á besta mögulega mátann - og þá þannig að þeir eyði of miklum tíma í efnið og of litlum í aðferðir o.s.frv.

    ReplyDelete
  4. .... ég held kannski að einhverju leyti hafi ég einhvers konar 'rómantíska' nálgun á starfið ....

    ReplyDelete
  5. Bjarnheiður KristinsdóttirAugust 27, 2013 at 6:07 PM

    Já, ætli þetta með tímanýtinguna hafi ekki líka með umgjörðina að gera? Strax og vettvangur skapast til að ræða saman, deila reynslu og skiptast á skoðunum þá verður starfið okkar miklu skemmtilegra og aðferðamiðaðra (minni áhersla á efnið, sbr. ekki kennum við öll það sama). Þess vegna var starfendarannsóknahópurinn í Versló svo frábær (upp á aðferðir og umræður) og mér fannst líka mjög góður andi varðandi efnið (þarf jú líka að gæta að þeim þætti auk aðferðanna) inni í herbergi stærðfræðikennaranna og sá að það sama gilti hjá ykkur í enskunni og hjá fleirum og fleirum. Ef hver maður er alltaf í sínu horni út af fyrir sig þá er tilhneigingin oft frekar að festast...

    ReplyDelete