Monday, April 1, 2013
Ævintýralandið
Ég vil bara hérna aðeins tjá mig um spilið Ævintýralandið sem ég hef tekið nokkra snúninga á með dætrum mínum. Í stuttu máli þá líkar þeirri 7 ára spilið ákaflega vel, en þeirri 11 ára síður. Ég hef líka þá reynslu að sumir krakkar kveikja mjög vel á þessu, en ekki alveg allir.
Í þessu spili er unnið með hugmyndir úr klassískum spunaspilum, þær einfaldaðar og snikkaðar niður til að henta yngri spilurum. Það eru karakterblöð þar sem eru sex eiginleikar sem maður getur raðað á fimm stjörnum í upphafi. Að auki getur maður fengið verkfæri, félaga, furðuhluti og hluti. Spilahópurinn glímir svo saman við ákveðin verkefni/ sögur og fær að launum peninga - peningarnir koma í staða reynslustiga (XP). Það sem minni sjö ára finnst mest spennandi er að fá að kaupa nýja hluti, öðrum finnst mest gaman að því að lita karakterana sína og aðrir lifa sig inn í sögurnar.
Kostur við þetta spil er að það er mikill sveigjanleiki, maður losnar við samkeppni (þó ekki alveg, því gæta þarf að því að allir hafi sitt hlutverk í hverri sögu). Annar kostur er að spilið er fallega hannað, teikningarnar eru flottar og það ýtir undir ímyndaraflið.
Gallinn er svo að vissu leyti sá sami og kosturinn - það þarf sterkan stjórnanda í þetta spil, og ég myndi halda að fólk sem er ekki vant spunaspilum grípi þetta ekki alveg - þannig að hætt er við að spilið sitji óhreyft upp í skáp víða (líkt og mörg önnur spil!). Jafnframt finnst mér ekki alveg nógu skýrt hvaða afleiðingar það hefur ef eitthvað misheppnast - það á að skera úr um hvort tiltekin aðgerð heppnast með skæri - blað - steinn (sem er snjallt og kemur í stað teninga) - en afleiðingar þess þegar eitthvað misheppnast eru óljósar og stjórnandinn þarf að leysa það - og það getur dregið úr spennunni ef allt gengur alltaf vel. Svipað vandamál er að karakterarnir eru ekki með neitt sem líkist 'lífi' (eða hp) - en krakkar eru yfirleitt vanir svoleiðis úr tölvuspilum. Ég hef reyndar spunnið upp húsreglur þar sem ég einfaldlega bætti slíku við - og gerði sögurnar aðeins meira krassandi. Það er síðasti vandinn að sögurnar eru sumar hverjar mjög snjallar í grunninn en mér finnst þurfa að poppa þær upp - hækka flækjustigið þannig að allir í hópnum fái eitthvað að sýsla og jafnframt að bæta við einhverjum háska.... það er áhugavert að í verkfærunum eru bogi og örvar og sverð, en eftir því sem ég hef séð þá eru engar sögurnar þannig að í þeim séu bardagar - sem mér finnst alveg óþarflega, tja, væmið eða eitthvað....
Allt um það þá tel ég að hér sé um frábæra íslenska spilahönnun að ræða og ég vona að það komi fleiri svona spil á markað. Ég tel líka að þetta spil eigi fullt erindi inn í skólastofuna og frístundaheimilin þar sem hér er ýtt undir samvinnu og samræður, læsi, tölvísi, rýmisskynjun, leikræna tjáningu og margt annað það sem góð spil geta gert - áfram Ævintýralandið!
Labels:
Ævintýralandið,
spil,
spunaspil
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Þakka þér kærlega fyrir umfjöllunina. Hún er skrifuð af reynslu og innsæi og er í afar jákvæðum tón. Það gleður okkur auðvitað mikið, sérstaklega þar sem við erum að vinna í viðbótum til útgáfu síðar á árinu!
ReplyDeleteVonandi hefurðu gaman af því ef sínum þakklæti okkar í verki og förum aðeins yfir greinina þína.
Það gleður okkur ævinlega að heyra af því þegar foreldrar setjast niður með börnum sínum og njóta samvista með þeim eins og þú hefur gert. Dætur þínar eiga alveg áreiðanlega eftir að meta þann tíma sem þú eyðir með þeim í ævintýraheimi ef þær eru eitthvað eins og synir okkar. Þeir eru einmitt á sama aldursbili og dætur þínar, en þeir eru orðnir 10 og 14 ára og voru um páskana einmitt að spila spunaspil með vinum sínum sem sjálfir fengu Ævintýralandið þegar það kom út og hafa spilað það mikið.
Við tökum undir það að á milli 11 og 13 ára aldursins fara breytingar á hugarheimi barnanna að gera það að verkum að þau kalla á flóknari spunaspil og meiri samkeppni. Það virðist gerast örlítið fyrr hjá stúlkum en drengjum. Við vorum meðvituð um þetta en fannst nóg til af spilum sem þjónustar 12+ en alger vöntun á svona spilum fyrir aldurinn 4 til 12. Hefurðu prófað Ævintýralandið með 4 til 5 ára börnum? Það er mjög gefandi en upp á síðkastið höfum við farið í Ævintýralandið með stórum hópum 4 og 5 ára barna í leikskólum borgarinnar þar sem verið hafa allt að 15 börn í einu og 3 kennara í einu. Raunar eru mörg börn allt niður í rúmlega þriggja ára gömul fær um að vera söguhetjur Ævintýralandinu ef sögumaðurinn fylgir leiðbeiningunum fyrir yngsta aldurshópinn. Það fer aðallega eftir málþroska sem er einstaklingsbundinn. Okkar drengir byrjuðu t.d. þriggja ára og tveggja mánaða og þriggja ára og sex mánaða og það kom okkur á óvart hversu fyrirhafnarlaust það var fyrir þá að hella sér út í ævintýrasögur eiginlega um leið og þeir gátu tjáð sig.
Eins og þú bendir á unnum við með hugmyndir úr öðrum spunaspilum, enda kannski ekki skrýtið því annar höfundanna, Rúnar Þór, er höfundur Asks Yggdrasils og bjó m.a. til orðið „spunaspil“ yfir enska hugtakið „role playing games“ sem fram að því vöru eingöngu kallaðir „hlutverkaleikir“. Þannig að það var eðlilegt. Ef þú ert kunnugur Askinum sérðu kannski líkindin milli meðaltals hæfileikaflokkanna þar og hæfileikanna sex í Ævintýralandinu þótt þeir séu ekki þeir sömu
Við vildum forðast of mikla samkeppni á milli spilara í Ævintýralandinu og ekki vera með ofbeldi (skrímsli, heildarendingarstig, vopn, skaða o.þ.h.) ýmissa hluta vegna. Við vildum t.d. ekki búa til ofbeldisspil því yngsta fólkið, þriggja til fimm ára, á rétt á sínum saklausa heimi og þeim sem við prófuðum þetta með fannst einfaldlega ekki gaman að því að beita ofbeldi og fundu til hryllings við að drepa eða særa fólk og skepnur. Yfirleitt skemmdi það upplifunina fyrir þeim yngstu – Þú mátt trúa að við prófuðum.
Við komumst að því að ekki er samasemmerki á milli þess að vilja ekki drepa aðra og þess að vilja eiga sverð og boga, eins fyndið og það kannski er. Sverð og bogi vöktu ævinlega mestu hrifninguna í verkfærabúðinni bæði hjá strákum og stelpum. Þessvegna höfðum við þau verkfæri með án ofbeldisreglanna og þau eru jafnan notuð til að smíða, brjóta niður hurðir og stálpaðir krakkar nota þau til að skelfa þá örfáu misyndismenn sem eru í sögum Ævintýralandsins.
Frh.
Önnur ástæða fyrir að hafa bardaga ekki með var lengd leiðbeininganna. Hver einasta málsgrein þarf að eiga rétt á sér í almennilegum leiðbeiningabæklingi. Hvað var nógu „nauðsynlegt“ til að spila sögurnar til að eiga heima í grunnreglunum? Bardagi, líf, vopnaskaði og hörfun varð fyrir fallöxinni en hver veit hvað gerist í framtíðinni?
ReplyDeleteÞú hittir naglann á höfuðið með umfjölluninni um sögumanninn (sterka stjórnandann) en það var meðvitað val. Markmið okkar hefur ævinlega verið að hjálpa ekki einungis börnum að leika sér með foreldrunum, heldur foreldrunum að leika sér með börnunum. Reglur og rammar henta ekki yngstu börnunum, þar snýst ævintýrið um flæði og frelsi. Það hreinlega ekki leið í kringum það og satt best að segja þá vonum við að foreldrar græði á þessu til jafns við börnin til lengri tíma. Líka þeir sem kunna ekki spunaspil frá því áður.
Frekar en að búa til of margar reglur og blása upp leiðbeiningabæklinginn, gerðum við ráð fyrir því að spunafólk mundi hreinlega búa til húsreglur og þeir sem ekki voru spunafólk mundi fara eftir reglunum eins og við settum þær fram. Það virðist virka nokkuð almennt. Foreldrar sem hafa reynslu af bardagakerfum annarra spila bæta þeim einfaldlega við ef börn þeirra hafa þroska til að takast á við beinagrindur og púka með vopnum og okkur finnst það bara frábært!
Svo við lekum einhverju smáræðis, þá má búast við „háskalegri“ viðbót í framtíðinni
Að lokum þá viljum við þakka þér kærlega fyrir alveg hreint ljómandi greiningu. Gaman að sjá í niðurlaginu að þú telur upp að „hér er ýtt undir undir samvinnu og samræður, læsi, tölvísi, rýmisskynjun, leikræna tjáningu og margt annað það sem góð spil geta gert“ en það er einmitt kjarninn í hugsjónum okkar höfundanna. Við erum foreldrar sjálf, börnin eldast hratt og það er mikilvægt að eiga með þeim stundir eins og þær sem verða til í Ævintýralandinu. Við höfum trú á því að það bæti samskipti, styrki tengsl og auki sjálfsöryggi barnanna okkar.
Þakka þér fyrir Ármann og njóttu heill.