Monday, April 1, 2013
Steinskrípin
Ég keypti mér og las þessa skemmtilegu bók eftir Gunnar Theódór Eggertsson. Þetta er óvenjuleg saga sem fjallar um baráttu tveggja íslenskra krakka í ansi óhuggulegri framtíð þar sem skrímsli hafa skriðið upp á yfirborð jarðarinnar og umbreytt henni í stein. Skrímslin, eða skrípin, eru ansi erfið viðureignar - og næra sig með því að umbreyta steindum lífverum og borða svo. Bergur er vakinn með þeim hætti, sleppur fyrir ótrúlega tilviljun, hittir svo Hlín og þau takast á hendur ferð í þessum heimi - finna annan og síðan fer allt eins og það fer.
Þetta er áhugaverð og nokkuð kraftmikil saga með mjög háu furðustigi - sérstaklega þegar kemur að endanum og lausn málanna. Mér finnst lausnin kannski í það fríkaðasta, og svona kannski dass af deus ex syndrómi þar, en það má ræða það. Mögulega er líka hægt að segja að lausnin sé pínulítið væmin - og sömuleiðis er umhyggja Hlínar fyrir öllu sem lífsanda dregur - þar með talið skrípunum - áhugaverð, en á köflum ekki alveg trúverðug og allt að því pirrandi ... ég fékk aðeins á tilfinninguna að Gunnar sæti í predíkunarstól á nokkrum stöðum - viðurkenni reyndar að ég er extra viðkvæmur fyrir slíku.
Frásögnin er mjög myndræn - og sérstaklega í endann finnst mér að þetta gæti sómt sér mjög vel sem teiknimyndasaga eða teiknimynd - eða gerð með e-i svona vúdú nútíma tækni - lokabardagarnir væru megakúl í þrívídd!
Ljóst er að hugmyndaheimur sögunnur byggir á e-s konar Lovecraft arfleifð með hugmyndinni um verurnar sem sofa á hafsbotni og bíða síns tíma - en ógnin er kannski ekki jafn svaðaleg og sú hugmynd að skrípin séu bara hluti af jafnvægi náttúrunnar sem er gefin í skyn dregur hugsanlega úr slagkrafti hryllingsins. Ég skil hvað er verið að fara, en ég er það tegundamiðjaður að ef til væri fyrirbæri sem mannkyninu stafar slík ógn af sem þessi skrípi þá myndi mín nálgun á fyrirbærið vera að hér væri um tæra illsku að ræða .... en sú staðreynd að bókin ýtir undir svona hugleiðingar hljóta að vera mikil meðmæli!
Mér sýnist að í þessu verki sé gott jafnvægi í nálgun á hlutverk kynjanna - það sést t.d. á kápunni sem sýnir Hlín í bardagaham - en annars verður sú mynd að teljast fremur misheppnuð.
Mæli hikstalaust með þessari bók fyrir börn og fullorðna sem eru til í að fara inn í furðuvíddir framtíðarinnar undir fararstjórn Gunnars Theódórs Eggertssonar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment