Í nýrri námskrá í lýsingu á grunnþættinum sköpun er nefnt að leikurinn sé góð kennsluaðferð. Ég er sammála því og tel að líkt og margar aðrar góðar kennsluaðferðir sé leikurinn vannýtt aðferð. Ég er núna að keyra valnámskeið í Versló sem gengur mestan part út á að nemendur eru að leika sér, í spunaspilum nánar tiltekið. Verkefnið er algjör tilraun, en fer nokkuð vel af stað. Ég gef nemendum efni til að byrja á, en hleypi þeim svo mjög frjálsum af stað út í leikinn, og reyndar út í skólann líka, þar sem hver hópur hefur fundið sér aðsetur. Ég hleyp svo á milli, fylgist með og úrskurða um vafaatriði. Það kemur margt í ljós um frumkvæði, sköpunarkraft og svo framvegis í þessu sem ég mun segja meira um þegar lengra líður á. Næsta skref hjá mér er að setjast inn í hvern hóp og spila með. Ég tel að spilin séu frábær uppspretta fyrir óformlegan lærdóm í orðaforða og ýmsum þrautalausnum, gefi nýtt sjónarhorn á persónusköpun, opni augu nemenda fyrir uppbyggingu sagna og kvikmynda o.s.frv. .....
Þannig er hægt að nýta leiki og spil með beinum hætti - hitt sem ég tel nú raunar stærra og mikilvægara mál er að kennarar tileinki sér afslappaðri, og það sem er kallað á ensku meira 'playful' afstöðu til starfs síns - mér finnst að kennarar eigi fremur að starfa í anda tilraunasinnaðra lista- og vísindamanna en þungbrýndra hofpresta .... en það er nú kannski bara einhver léttúð og vitleysa....
No comments:
Post a Comment