Saturday, April 7, 2012

Lærdómur: kerfisbundið ferli eða eitthvað sem gerist meðan þú ert að bauka við annað?

Þessi póstur er íslensk útgáfa á smá pistli á enska blogginu mínu, Incidental Learning. Ég hef undanfarið mikið verið að pæla í lýðræðislegum skólum, og einkum Sudbury Valley School, skemmtileg innleiðing í hvað það snýst um má sjá hér í vídeóinu um nemandann sem svaf.

Þegar Bret Mckenzie tók við óskarsverðlaunum fyrir besta lagið í kvikmynd, "Man or Muppet", þakkaði hann foreldrum sínum sérstaklega fyrir að hafa aldrei vesenast í honum með að 'fá sér almennilega vinnu'. Chris Kubasik, leikjahöfundur, tileinkar skáldsögu sína Changeling föður sínum, 'who kept the house well stocked with books.'  Ég ólst upp innan um bókastafla, tímaritsgreinar, Þjóðviljann (helgarblaðið var frábært) og ég leitaði að vild í þessum fjársjóðum og lærði heil reiðinnar býsn, óþvingað og af eigin áhuga. Ég man sérstaklega eftir að horfa á bókahillurnar og hugleiða titla eins og Ég læt allt fjúka, og Vindur, vindur vinur minn (bækur sem ég svo las reyndar ekki).

Nú alast ekki allir upp við aðstæður eins og ég, McKenzie og Kubasik, þess vegna er hlutverk skólanna til að jafna stöðuna svo mikilvægt. Þetta er ein af ástæðum þess að allt tal um að það þurfi að sinna 'bráðgerum' börnum eitthvað sérstaklega hefur aldrei hljómað sannfærandi í mín eyru - þessir bráðgeru eru með nóg að bauka og pæla og pluma sig. Það sem skólinn þarf að gera er að veita öllum tækifæri til að bauka og pæla og finna sig. Kennarar eiga að vera alskonar fólk með alskonar þekkingu sem krakkarnir eiga að hafa aðgang að, en þeir eiga ekki endilega stöðugt að þröngva sér og sínu upp á þá. Ég held að þó að bara ákveðin hluti af skólastarfi væri haft í anda lýðræðisskólanna myndu opnast möguleikar fyrir krakka til að finna sig og ná að móta sig, sem tónlistarmenn, leikja- og fantasíuhöfundar, eða sem fyrsta flokks íþróttamenn og bloggarar eins og ég.... hmmm....

Hér er náttúrulega margt sem þarf að skoða, en þröng og skilyrðislaus skipting eftir aldri er óeðlileg, takmarkaðir möguleikar til vals, stífar og ósveigjanlegar stundatöflur og of litlir möguleikar til að velja.

Ég ætla ekki að halda því fram að maður læri allt svona. Ég vil að fóllk fari í stífa þjálfun og taki próf í að keyra bíla, fljúga flugvélum og öllu slíku. Misskilningurinn sem hefur átt sér stað er að halda að allur lærdómur eigi sér stað með sama hætti og lúti sömu lögmálum. Í mínum greinum, ensku og heimspeki held ég að það sé alveg fráleitt að svo sé, þekkingin og færnin byggist atvikskennt upp yfir langan tíma og verður til í ástundun og er knúin áfram af áhuga.


Verkefni: Í textanum er ein staðreyndavilla. Finnið hana og rökstyðjið svarið. Einungis verður farið yfir svör í kommentakerfi Blogspot. 

3 comments:

  1. Góðar og þarfar pælingar um margt. Ég hef stundum verið að velta svona þáttum fyrir mér sjálfur. Sérstaklega þegar ég velti fyrir mér því sem lærist innan stofunnar og í heimanáminu á móti því sem lærist í öðrum þáttum svo sem félagsstarfinu og tómstundum. Sérstaklega velti ég þessu fyrir mér þegar ég er orðinn pirraður á lélegri frammistöðu í prófum.

    Á hinn bóginn þá finnst mér nauðsynlegt að nemendur læri ákveðna grunnþætti og að til þess þurfi þjálfun undir leiðsögn. Hér reyndar stendur stíft menntakerfi kennurum fyrir þrifum þar sem sumir þættirnir eru tímafrekari heldur en kerfið gerir ráð fyrir. Því er oft dregið úr því sem mest þyrfti í raun að þjálfa og annað gert í staðinn sem tekur minni tíma.

    En ég held að hugleiðingar af því tagi sem þú setur fram sé skref í rétta átt.

    ReplyDelete
  2. Í mörgum aðalatriðum er ég sammála þér og tel umfjöllun um þessi efni mjög mikilvæga. Um sumt minna sjónarmið þín á ágætar en umdeildar skoðanir Þorsteins Gylfasonar sem hann birti í Nýjum Menntamálum árið 1994 og kallaði "Skólar, úthrif og þroski". Þar fjallar hann um ýmislegt sem lærist í skólum en ekki er verið að kenna beinlínis og væri kannski ekki hægt að hafa í námskrá. En það er ljóst að við lærum með ýmsu móti og auk þess eru einstaklingar mjög ólíkir í þessu efni sem öðrum. Ég tel að það ætti að taka sjónarmið þín til alvarlegrar skoðunar í menntakerinu og kanna hvort þau kalli ekki á miklar breytingar í viðhorfum, verklagi og inntaki skólastarfsins.

    ReplyDelete
  3. Man eftir þessu með 'úthrifin'. Ég var nú oft, og þá oft mjög sterklega, óssammála Þorsteini, en þessi pæling finnst mér góð hjá honum. Ég held að hluti af pæingunni hjá honum hafi verið gagnrýni á lífsleikni og siðfræðikennslu og ég deili ákveðnum áhyggjum af tilhneigingu til að gera of mikið af slíku að beinu kennsluefni. Reyndar fæ ég ákveðin svona forræðishyggjuhroll og finnst Panopticon Foucaults vera farið að verða ansi öflugt þegar talið berst að forvörnum og að maður tali nú ekki um 'heilsueflandi framhaldsskóla' .... Nokkrar afleiðingar af þessari 'línu' (sem er nú ekki beint ákveðin lína, myndu vera:
    -að slaka aðeins á og leyfa verunni að vera (let being be).
    -átta sig á að ýmis markmið geta verið ósamrýmanleg: þannig eiga grunnhugtök eins og 'lýðræði' og svo 'heilbrigði' erfitt samband. Það er kannski til marks um skort á heimspekilegri rýningu að þetta er ekki gert að marki.
    -Fjölbreyttari kennarahóp, með fjölbreyttari menntun.
    -Vinna miklu meira í að afbyggja mörk skólastiga...

    Svona pælingar eru líka mikilvægar fyrir háskólastigið og það mætti velta fyrir sér hvort það hafi tekið alltof mörg skref í átt að svona e-s konnar ameríkaníseringu og of mikla rasjónalaríseringu... (ég hef nú ekki kynnt mér það alveg nógu vel samt.... )

    ReplyDelete