Thursday, December 21, 2023

Íslenskir nemendur í dönsku umhverfi

Þessi póstur er ekki nema óbeint og á ská innlegg í einhvers konar Pisa umræðu, og getur ekki talist vísindaleg, heldur er þetta lítil reynslusaga tengd starfi mínu sem kennari í svokölluðum NGK bekk í Versló. Ég sinni umsýslu og praktískum málum þessu tengd, en að auki kenni ég bekknum ensku, og þá samkvæmt dönsku kerfi sem er all ólíkt íslenska áfangakerfinu, en ég hef nú eitthvað tjáð mig um það annars staðar og geri mér ekki mat úr hér. 
Nýlega var ég á fundi með kollegum mínum í Færeyjum og Danmörku um verkefnið, og þar kom fram pæling sem ég hef oft heyrt áður en hún er sú að upplifun danskra kennara er að íslensku nemendurnir séu óvanir að tjá sig í tímum, séu óvanir því að vera beðnir um að hafa skoðun á hlutunum og séu ósjálfstæðir í vinnubrögðum. 
Vissulega er hópur íslenskra krakka sem fer út lítill, en mér finnst þetta samt merkilegt. Íslensku krakkarnir eru vön tíðum skyndiprófum, verkefnablöðum, en ekki vön að taka þátt í umræðum, rétta upp hönd og koma með sín eigin sjónarmið.
Faglega séð eru þessir krakkar sterkir, sérstaklega í ensku, þau standa líka nokkuð vel í stærðfræði en stóri þröskuldurinn er danskan, sem getur ekki talist annað en eðlilegt, og svo er það þessi menningarmunur sem kemur fram og t.a.m. enskukennarnir taka vel eftir. Þar sem hluti af einkunnum krakkana byggir á þátttöku í tímum og virkni í umræðum skiptir þetta máli, og flest þeirra ná sér á strik með þetta á fyrsta árinu. 
Þessir krakkar hafa komið úr hinum og þessum skólum og eru mjög fjölbreyttur hópur, en þarna kann að vera einhver vísbending um að vinnubrögð á unglingastiginu hér hjá okkur séu aðeins í einhæfari kantinum og við gætum lært eitthvað af frændum okkar. 

Monday, July 3, 2023

Grein í Vísi 2 - breytingar í framhaldsskólum

 Tengi hér á grein eftir mig í Vísi, svona til að halda til haga - Breytingar í framhaldsskólum.  Það hafa orðið líflegar og skemmtilegar umræður um þetta á féalgsmiðlum hjá mér, og ég vil halda til haga að

  • þriggja anna kerfið með lotum var þróað í MS en ekki í FG 
  • spannakerfi (fjórar annir) hefur verið þróað í Menntaskólanum á Egilsstöðum
  • fjarnám á framhaldsskólastigi er mjög öflugt og að líkindum einstakt á heimsvísu 
  • MH var með 3 anna kerfi þegar skólinn var stofnaður, en þá var ekki komið áfangakerfi


Thursday, June 29, 2023

Námsmat - grein í Vísi 1

Ég skelli hér inn link á grein sem birtist í Vísi um námsmat eftir mig, svona til að halda utanum það sem ég skrifa hér. Vinur minn benti mér á að það vantar inn í greinina kveikjuna að greininn, en það mun vera Facebook póst frá Ragnari Þór Péturssyni þar sem hann stingur upp á inntökuprófi í Versló og aðra vinsæla skóla, sem mér finnst alveg afleit hugmynd. 

Annað undirliggjandi eru pælingar um símatsáfanga vs. prófaáfanga í framhaldsskóla og kannski svona pælingin að benda á að munurinn sé kannski ekki svo afgerandi. 

Greinin mín í Vísi

Sameiningar og allir í verknám

 Í síðustu viku kom upp umræða að sameina eigi Kvennaskólann og Menntaskólann við Sund og starta nýjum skóla í Stakkahlíð, sem nú um stundir hýsir Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ein af ástæðum þess að flytja þurfi MS er sögð að húsnæði skólans sé myglað, en svo er víst Stakkahlíðin líka mygluð - svo mögulega væri verið að fara úr myglunni í fúkkann. Rökin fyrir svona sameiningu eru fjárhagsleg hagræðing og einhver samlegðaráhrif sem samkvæmt reiknimeisturum skili til lengri tíma hagnaði. Jafnframt er talað um minnkandi árganga svo þörfin fyrir framhaldsskólapláss muni fara minnkandi á næstu árum.  

Þetta er gott og blessað, en rökin fyrir því að velja þess tilteknu skóla eru ekki augljós. Skólarnir tveir eru mjög ólíkir og í þeim báðum hefur farið mikil vinna í að þróa og prufukeyra fyrirkomulag náms sem má segja að séu á sitthvorum enda e.k. rófs bekkjarkerfis og áfangakerfis. MS er með einhvers konur ofuráfangakerfi með þrjár annir og lotufyrirkomulag, Kvennó með bekkjarkerfi með töluvert miklu vali sem var þróað sem ákveðin fyrirmynd fyrir aðlögun að styttingu framhaldsskólans - og það fyrirkomulag er t.d. að ýmsu leyti fyrirmynd kerfisins sem tekið var upp við styttingu í skólanum mínum, Versló. Bæði þessi kerfi hafa fallið vel í kramið hjá framhaldsskólanemum og mikil aðsókn verið að báðum þessum skólum undanfarin ár. Svo má líka benda á að námsfyrkomulagið í langvinsælasta skóla landsins, sem er víst einmitt Versló, líkist um margt fyrirkomulaginu í Kvennó. Ef sameina á þessa tvo skóla er útilokað að halda í bæði þessi módel og mikil óvirðing við þróunarstarfið í báðum þessum skólum að taka alla þá vinnu og henda henni í ruslið. Miklu nær vær að sameina skóla sem eru með hefðbundnari útfærslur á áfangakerfinu, nú eða að sameina tvo bekkjarskóla (FB/ FÁ, MH/ FÁ, MR/Kvennó, Kvennó/ Versló .... ). Það er aðalsmerki íslenska framhaldsskóla hversu fjölbreytileg flóran er hjá okkur og sveigjanleikinn í kerfinu er mikill. Hins vegar er það svo að bekkjarkerfið er í ákveðinni varnarbaráttu (það virðist ekki henta yfirvöldum þó eftirspurn eftir því sé mikil hjá nemendum) og ég óttast mjög að þessi nýi skóli myndi frekar dám af áfangafyrirkomulaginu í MS en kerfinu í Kvennó. 

Önnur hlið á þessu máli eru áætlanir um að mikið stærri hluti nemenda fari í verknám. Jákvætt er að nýlega hefur eftirspurn eftir verknámi aukist, en hins vegar finnst mér það mjög hæpið að ætla að handstýra stórum hluta árganga í eitthvað tiltekið nám, og velti því mjög fyrir mér hvernig eigi að fara að því. Hér óttast ég að ákveðnir hópar sem fara í bóknám tryggi stöðu sína enn frekar í samfélaginu og hér sé uppskrift að meiri stéttaskiptingu og elítumyndun. Aukin tölvuvæðing, meiri alþjóðasamskipti, breytingar á stöðu íslenskunnar og margt fleira held ég geti einmitt kallað á öflugt bóknám þar sem þekking á tungumálum, samfélaginu og grunngerð þess og flóknari færni tengd tölvum og tækni verði mikilvægari en verknám. Ég veit þetta náttúrulega ekki, en eins og ég hef bloggað um áður þá finnst mér að það eigi að hlusta á það hvað fólk vill þegar boðið er upp á nám en ekki semja einhverjar loftkenndar fimm ára áætlanir sem byggja á heimi sem er að líða undir lok og tengist ekki endilega þeim heimi sem býður okkar í þoku framtíðarinnar.