Sunday, November 24, 2019

Tilgáta um kerfi



Þessi póstur er nú svona frekar kannski heimspeki en beint menntablogg, og þó.

Mennirnir, náttúran og alheimurinn eru samsafn ótrúlegs fjölda kerfa sem eru bæði aðskilin og samtvinnuð. Ég er með ónæmiskerfi, lifi í hagkerfi, starfa í menntakerfi og er hluti af vistkerfi. Stundum fer ég svo líka bara alveg í kerfi.

Að menntast er að vakna til vitundar um þessi kerfi og samsetningu þeirra. Þeir sem vilja ganga lengra sökkva sér oní eitthvað ákveðið kerfi og geta frætt okkur mikið um það, aðrir pæla í tengingum milli kerfa og svo framvegis.

Í bókinni Sapiens setur Yuval Noah Harrari fram skemmtilega hugmynd um tvenns konar kerfi, en hann kallar þau kaos 1 og kaos 2. Kaos 1 kerfi er t.d. veðrið. Það er mjög flókið kerfi með töluverðum ófyrirsjáanleika sem má skilja með flóknum vísindum og stærðfræði, og það er hægt að spá fyrir um framtíð kerfisins (með misgóðum árangri). Veðurspáin hefur hins vegar engin áhrif á veðrið.

Kaos 2 kerfi er svo hins vegar kerfi eins og hagkerfi. Ef ég spái því (og er í þannig stöðu að mark sé á mér tekið) að verð á gulli muni hækka, þá gæti mjög vel verið að verð á gulli lækki. Það sem er sagt um kerfið hefur áhrif á það; það má segja að kerfið sé með ákveðnum hætti meðvitað um sjálft sig. Menntakerfið er klárlega kaos 2 kerfi, en þar líkt og í flestum slíkum tilfellum látum við eins og það sé líkara veðrinu (sem er frekar einfeldningslegt).

(ég er svo að vinna með tilgátu um kaos 3 kerfi)

Til að flækja þetta svo aðeins er áhugavert að hugsa um loftslagsbreytingar  en þar komum við að samspili milli kerfa, og þá einmitt hagkerfisins og veðurkerfisins. Virkni hagkerfisins hefur þar áhrif á þróun kaos 1 kerfis, og hugmyndafræði og athafnir þar hafa áhrif, áhrif sem svo er að líkindum hægt að breyta með því að spá og breyta athöfnum og hugmyndafræði okkar.

Ég held að e.k. kaos 2 vitund sé lykilatriði; að átta sig á því hversu dýnamísk stór hluti kerfanna sem við hrærumst í eru í raun, en ég held það kalli á aðlögun á hugsun og okkar og hegðun á margvíslegan hátt.

En engin ástæða til að fara í kerfi samt.

No comments:

Post a Comment