Monday, November 19, 2018

Bekkjarkerfi og áfangakerfi II

Í tilefni af umræðum um bekkjarkerfi og áfangakerfi sem tengjast bloggi mínu um efnið sem hafa spunnist á Facebook þá ætla ég að bæta aðeins við og bregðast við ákveðnum pælingum hér. Umræðan er á nokkuð óvísindalegum nótum, og tengist reynslu og tilfinningu okkar fyrir kerfunum sem kennarar annars vegar og nemendur hins vegar.

Kveikja umræðunnar var hugtakið "umhyggjusamband" nemenda og kennara sem er áhugavert fyrirbæri. Bekkjarkerfi er ekki forsenda slíks sambands, en ég held að slíkt samband myndist ekki milli kennara og nemenda í hóp sem kennari kennir eina önn, til þess þarf lengri tíma. Að sama skapi myndast ekki sterkt tengsl milli nemenda sem sitja saman eina önn í hóp, ólíkt því sem gerist í bekk sem er saman í flestum fögum yfir lengra tímabil. Tilgáta mín væri þá að í þeim tilfellum þar sem nemendur hafa sömu kennara um lengri tíma en eina önn í bekkjarskólum geti slíkt samband myndast. Að sama skapi myndast örugglega sterk slík sambönd innan lítilla skóla, enda hafa þar nemendur oft sömu kennara um lengri tíma og nánd milli nemenda og kennara er miklu meiri, og skiptir þá engu þó þeir skólar séu áfangaskólar. Að sama skapi held ég að svipað geti verið upp á teningnum á litlum brautum, og myndi ég nefna sem dæmi Alþjóðabrautina hjá okkur í Versló, sem ég tel vera mjög merkilegt menntamenningarfyrirbæri fyrir margra hluta sakir.

Í bekkjarskóla er það þannig að hver bekkur hefur ákveðinn karakter, félagslega og námslega. Ef vel er þá virkar bekkurinn sem eins konar "lærdómssamfélag" þar sem sterkir nemendur eru til stuðnings þeim sem veikari eru fyrir námslega (og félagslega) - og bekkurinn stendur saman þegar á gefur, bregst sameiginlega við ósanngirni af hendi kennara o.s.frv., veitir nemendum ákveðið skjól sem ekki er fyrir hendi í áfangaskóla. Ef námsandinn er ekki jákvæður í bekknum og ef leiðandi aðilar innan hans hafa tilhneigingu í leiðindi getur andinn orðinn lærdómsfjandsamlegur, sem er afleitt.

Sjálfur var ég nemandi í áfangaskóla´, MH,  og var mjög ánægður. Ég var í frábærum vinahóp, sterkur nemandi og naut þess að geta valið mikið af áföngum á sviðum sem hentuðu mér - og ég náði góðu sambandi við kennara. Valið, sveigjanleiki og að sækja sér styrk í vinahópinn er það sem áfangaskólinn gefur, og það er auðveldara að feta sína eigin braut - bekkjarskólar geta vissulega ýtt undir ákveðna meðalmennsku. Fyrir ýmsa er það þannig að valið sem að skólinn sem þau eru í býður er ekki endilega eitthvað sem hentar þeim, vinahópurinn er kannski alls ekki öflugur innan skólans og samband við kennara er mjög takmarkað. Mig grunar t.d. að fyrirkomulag varðandi umsjónakennara nái ekki að skila sér í sterkum tengslum nemenda og kennara í áfangaskólum.

Önnur áhugaverð atriði eru kostir og gallar þess að nemendur hafi heimastofur, þróun og útfærsla félagslífs (t.d. bekkjarpartí), ákveðnar pælingar varðandi t.d. hópavinnu (sem þarf að hugsa með öðrum hætti í bekkjarkerfi en áfangakerfi) - og svo síðast en ekki síst það sem ég held að næsta blogg í þessum flokki beinist að möguleikar á að gera bekkjarkerfið framsæknara. 

2 comments:

  1. Ef ég leyfi mér að hafa skoðun á þessu sem kennari sem kennt hefur í tveimur bekkjarkerfisskólum og einum áfangaskóla, við HÍ og í grunnskóla þá virði ég þessar hugleiðingar Ármanns mikils enda maðurinn frábær skólamaður.
    En ég verð að segja að kerfið hefur bara ekkert með þetta að gera. Ef ég skil skrifin rétt hjá Ármanni þá á hann við umhyggjusamband kennara og nemenda eða nemanda. Ég myndi orða það þannig að segja að þar sé átt við að kennarinn láti sig varða um nemendur sína og að nemendur hans finni það að hann láti sig varða um þá sem hóp og sem einstaklinga. Í þessu efni er aðeins einn sem skiptir máli og er algjörlega óháður kerfi. Það er kennarinn sjálfur.
    Af minni reynslu er það kýrskírt. Maður hefur lesið gnægð bóka um þetta. Ofsted - breska matsfyrirtækið fór í gegnum hundrað ára skólaeftirlitsskýrslur og komst að því að kennararnir sem fengu bestu umdagnirnar (í eitthundrað ár) voru þeir sem létu sig varða. Rauður gegnumgangandi þráður. Í bókinni 15 thousand hours er sagt frá ungmenni sem fór í gegnum glænýtt og stórglæsilegt skólahúsnæði með kennara eða skólastjóra sem spurðu ungmennið hvernig því litist á og drengurinn sagði: Its still f++++++ school.
    Eitt þúsund nemendur (USA) sem skv. skimunarprófum voru öruggir brottfallsnemendur en urðu það ekki og luku námi voru beðnir að skýra hvað þeir hefðu gert öðruvísi. Hver einn og einasti mun hafa sagt: A teacher said to me... og það var þá eitthvað jákvætt.
    Kennarinn ræður öllu um svona mál. Punktur. Rétt eins og skólameistarinn getur grafið undan eða byggt undir starf kennarans. Kerfi, gerð húsnæðis og slíkt er styðjandi en það skiptir ekki máli hvort þú kennir í flottasta skóla sem finnst á byggðu bóli eða á götunni í Yemen eða Afganistan. Það er viðhorf þitt til nemenda sem ræður öllu. Trúðu mér.

    ReplyDelete