Monday, June 8, 2015

Heimspekileg samræða alá Brenfier og Millon

Fyrst
Snemma í júní fór fram námskeið í heimspekilegri samræðu í Reykjavík þar sem leiðbeinendurnir voru hjónin Oscar Brenifier og Isabelle Millon. Ég ætla hér að fara í fljótheitum og samkvæmt minni yfir ákveðna þræði námskeiðsins. Rétt er að taka fram að ég hef áður verið á námskeiði hjá þeim, og bloggaði mas. smá um það líka, en á ensku. Það blogg er hins vegar afleitt, ef þið nennið ekki að lesa lengra hér gætuð þið kannski frekar kíkt á þetta. (þetta er um Derrida)

Ég skipti þessu í tvo hluta, fyrri hluti er gróf lýsing á aðferðinni sem kynnt er á námskeiðinu, og seinni hlutinn örstutt pæling um heimspekina sem kynnt er til sögunnar.

Aðferðin
Þáttakendur sitja í hring, með blöð og skriffæri við hendina. Stjónrandinn (e. moderator) situr fyrir miðju og stýrir framganginum, ein af grunn forsendum aðferðarinnar er sterk, virk og mikil stýring. Einn talar í einu, alltaf eftir að hafa fengið leyfi stjórnanda og málflutningurinn þarf að lúta skýrum lögmálum. Tjáning skal vera stutt. Spurt er spurninga sem svarað með jái/ nei-i / einu orði eða stuttri setningu og svo skal í stuttu máli rökstyðja. Öll hikorð, útskýringar, afsakanir, eða tilraunir til að kvalífísera það sem maður er að segja eru slegnar út af borðinu. Þegar þátttakandi hefur tjáð sig eru hinir spurðir hvort þeir hafi skilið það sem viðkomandi sagði. Ef ekki þá þarf viðkomandi að skýra mál sitt betur/ fá einhvern annan til að útskýra fyrir sig. Þátttakendur ávarpa hverjir aðra með nafni, orða spurningar sínar skýrt. Þegar komin er skýring þá þakka þeir fyrir sig. Einkum er lögð áhersla á að þakka fyrir þegar sýnt hefur verið fram á rökleysu í málflutningi manns. Viðfangsefni samræðunnar eru fyrst og fremst að finna hugtök (e. conceptualisation) og að finna vandamál í staðhæfingum (e. problematisation). Stjórnandi grípur á lofti hugtök eða atriði sem koma til sögunnar og fylgir öllum þráðum, og þarf að vera mjög einbeittur og halda þræðinum skýrum í kollinum á sér. 

Annað sérkenni þessarar aðferðar er hvernig allt er til umræðu. Til að mynda kann að vera að einhver þátttakandi rétti aldrei upp hönd og taki ekki þátt og þá er möguleiki að sú hegðun verði gerð að umræðuefni. Stundum ákveður stjórnandi að höfðu samráði að þátttakandi megi vera áhorfandi (e. observer) ... en sú staða er opin til umræðu og getur orðið rannsóknarefni að finna út af hverju viðkomandi óski slíkrar stöðu. Þátttakendur sem streitast á móti því að svara spurningum já /nei, halda áfram að vísa í tilfinningar sínar eru sérstaklega teknir fyrir og þá er gjarna vísað í að hegðun þeirra sé með einhverjum hætti mynstur. Til að mynda kannski þátttakandi sem fer undan í flæmingi við spurningu sem gengur illa að svara og kemst í uppnám er spurður hvort þetta uppnám stafi af því að hann sé hræddur við að virðast heimskur. Annar sem vill setja á langar ræður kann að vera stimplaður sem besserwisser. Ekkert tillit er tekið til tilfinninga, og þó að einhver bresti í grát eða komist í mikið uppnám er samræðunni ekki hætt.

Áhugavert atriði í þessu er hvernig hópurinn er alltaf notaður sem viðmið. Til dæmis þegar einhver væri spurður 'Lendir þú oft í því að vita ekki hvernig þú átt að svara?' og þátttakandi segði 'nei', þá væri spurt hvað hópurinn haldi - og yfirleitt lendir þá þátttakandinn í því að hópurinn stendur gegn honum. Þessi hugmynd að vísa svona til hópsins byggir á hugmynd um 'common sense', þeas. að hópurinn sé handhafi almennrar skynsemi. Þannig eru mál útkljáð þegar mikill meirihluti hópsins er orðinn sammála, og helst að full samstaða hafi náðst. Þetta er oft mikið þolminmæðisverk, og það er annað einkenni að unnið er í löngum lotum. 

Ég tel að þessi aðferð hafi margi kosti. Það myndast töluverð spenna og fyrir mína parta finnst mér gott að eyða miklum tíma í að þegja og hlusta (sem er mér ekki alltaf tamt). Sú nálgun að leiða tilfinningar hjá sér með þessum hætti er óþægileg og ég hugsa að það gæti reynst býsna erfitt. Þegar þau hjón eru með sessjónir er allt tekið upp, og ég held að ef þær upptökur séu skoðaðar sé ekki um neitt að ræða sem gæti flokkast sem ofbeldi eða einelti, þetta snýst einfaldlega um að gefa sig á hendur reglunum og fylgja þeim. 

Heimspekin

Heimspeki Brenifier og Millon hvílir á hefð rökhyggjunnar (e. rationalism) og heimspekingarnar sem oftast er vísað til eru Spinoza og Kant. Brenifier vísar oft í Sókrates sem sína helstu fyrirmynd, og þegar þátttakendur eru upp á kant (no pun intended) við hann fer hann gjarna að tala um hvernig Sókrates var tekinn af lífi. Þannig sviðsetur hann sig sem rómantíska hetju heimspekinnar, og óvinurinn er afstæðishyggju og cuddly-wuddly miðjumoð og ofurtillitsemi samtímans. Ræðum það aðeins síðar. Samkvæmt greiningu sem ég held að sé mögulega óbirt þá skipti Páll Skúlason heitinn heimspeki í þrennt: Lífspeki/ frumspeki / aðferð. Lífspeki skipti hann svo í epíkúrisma/ stóuspeki / efahyggju - Frumspeki í hughyggju /efnishyggju / tilgangshyggju og Aðferð í greinin / lýsing / kerfi, Próf þetta á heimspeki BM. 

Lífspekin er klárlega af meiði stóuunnar. Hér á að leiða tilfinningar hjá sér, og stýra þeim með huganum. Það er mikilvæg lexía í erfiðri stöðu í samræðunni að við getum stjórnað viðbrögðum okkar. Svona aðstaða er að mínu mati mjög góð leið til að finna fyrir og vinna með sína eigin meðvirkni, og leið til að gráta eða verða reiður í algjörlega öruggu umhverfi og ef maður vinnur úr reynslunni mögulega hollt og að öllum líkindum skaðlaust. Auk þessa er ákveðin meinlætahugsun í gangi, sem er líka svolítið rómantísk, jafnvel væmin, sem gengur út á að það sem fengist er við í samræðunum þarna sé það allra mikilvægasta sem maður gerir, og ef maður er að hugsa um barnabörnin eða tómatana sína sé maður í einhverjum skilningi á villigötum, þetta er svoldið krúttlegt en erfitt að taka alvarlega. Annar þráður sem verður að teljast lífspekilegs eðlis, og kannski sá sem best komst til skila er hugmynd Sartre um vanheilindi (e. bad faith), það er þegar við komum ekki heil fram, segjum ekki það sem við meinum. Þannig sviðsetja þátttakendur gjarna einhverja afstöðu sem þeir hafa ekki í alvörunni til að verja einhverja hugmynd um sjálfa sig, sem er á endanum bara gríma - og verða þannig lifandi dæmi um þessa heimspekilegu hugmynd.

Frumspekin er að mínu mati e.k. hughyggja. Með hugsun okkar komumst við að niðurstöðum sem eru sannar og ekkert afstætt við það. Ekki er þörf á að vísa í ytri reynslu til að staðfesta þær. Þetta er hugsun sem þátttakendur eru óvanir og mjög hollt að komast í kynni við hana. Sá hluti þessarar hugsunar sem er ættuð frá Descaretes að mér skilst að skýrleikur=sannleikur finnst mér það sem Þorsteinn Gylfason kallaði 'bersýnilega fráleitt'. Hins vegar finnst mér skírskotunin til hópsins sem handhafa almennrar skynsemi áhugaverð og frumleg (gegn sérfræðingadýrkun), og líka þá leið til að díla við alls konar hártoganir og útúrsnúninga. Áhugavert er svo að hafa það í huga að MB hafa haft mikinn áhuga á heimspeki súfísta, búddista og zen búddista... .mikið af slíkri mystík teygir sig í átt að efahyggju og afstæðishyggju og ég þykist finna ákveðna hugmyndalega spennu í vinnu þeirra sem er mjög áhugaverð. Eitt af því sem t.d. er talað um hjá þeim mikið er að deyja til heimspekinnar, sem er e.k. nirvana - en slík upplifun tengist oft einhvers konar hugljómum um að í raun sé ekkert ábyggilegt og að öll kerfi séu blekking; þau virðast hins vegar standa fast á því að heimspeki hvíli á ákveðnum traustum forsendum sem hægt sé að finna og við getum treyst. 

Aðferð MB er augljóslega greining. Það er alltaf farið frá staðhæfingu og inn í hvernig hún sé rökstudd, en lítið um að farið sé í flóknari lýsingar á verunni eða slíkt, og ekki er hægt að sjá að um sé að ræða heimspekikerfi. Hér væri kannski hægt að gera athugasemd við stórkallalegar yfirlýsingar MB (einkum B) um 'póst-módernisma' sem er einhvers konar regnhlífarhugtak yfir það sem Þursaflokkurinn orðaði með þeim hætti að 'nútíminn sé trunta, með tóman grautarhaus' - og meðal annars þá vill B gangast við einhverjum af því sem kallað hefur verið 'grand narratives'. Mér finnst svona grautarleg notkun á hugtökum ekki sæmandi. Í fyrsta lagi er 'póstmódernismi' margt annað og miklu fleira, hugtakið er svo breitt og útjaskað að það er alveg ónýtt, allavega til að nota það svona. Jafnframt er svona 'allt var betra í gamla daga' og allt sem þið vitleysingarnar eruð að gera er bara ræpa svoldið svona þreytandi og banalt. Jafnframt finnst mér hvernig hann notar 'sálfræði' (e. psychology) afskaplega ónákvæmt og einkennilegt. Sálfræði er vísindagrein sem inniheldur margs konar stefnur og strauma, kenningar aðferðir og hugmyndir og að ætla að klína meintu dugleysi og hugsunarleysi samtímans á hana, í bandalagi við hinn illskeytta póstmódernisma finnst mér ósæmandi. Það er ekki að segja að tendensar í að taka ofurtillit til einstaklinga, feimni við að taka afstöðu, og kannski léleg hugsun sé ekki vandamál í samtímanum - rætur vandans eru bara flóknari og krefjast nákvæmari meðhöndlunnar en að sveifla fram einhverjum klisjum - nokkuð sem annars er fjarri í vinnubrögðum MB. 

 Í lokin

Námskeið hjá þeim hjónum Oscar Brenifier og Isabelle Millon eru sterk og merkileg reynsla. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þátttaka í þeim hefur gert mig að betri kennara, betri heimspekingi og jafnvel betri manneskju. Ég er gagnrýninn á margt sem þau gera og segja, en ég tel að þarna sé á ferðinni dæmi sem er mjög hollt að takast á við, einkum þeim sem vinna í umhverfi þar sem mannleg samskipti eru í öndvegi og þeim sem hafa áhuga á lifandi iðkun heimspekinnar.
4 comments:

 1. Takk kærlega fyrir þessa samantekt Ármann. Það er eitt sem truflar mig og það er nokkuð sem ég hef velt mikið fyrir mér þessa helgi, sérstaklega í framhaldi af samantektarfundinum á sunnudag. Þetta eina atriði er bæði að finna í þínum texta og meðferð Oscars Brenifier (OB) og lítur að því að hugtökunum meðvirkni og samlíðan er ruglað saman. Þegar samlíðan skortir er ofbeldi til staðar. Það er eitt að ákveða að eigin tilfinningar eigi ekki að skipta máli (ein reglan í aðferðinni/leiknum) en það er algjörlega annað mál að ákveða að tilfinningar annarra beri ekki að virða. Það er það sem mér finnst alveg rosalega vafasamt í aðferð OB. Það sem gerðist á föstudeginum var að mínum dómi ofbeldi. OB gerði margt til að vekja tilfinningar (þvert á orð sín um að halda þeim fjarri), hann virti ekki tilfinningar og yfirgaf ekki leikinn í kaffihléi. Uppákoman í hléinu fannst mörgum verst en mér finnst líka afar gagnrýni vert hvað hann hélt lengi áfram þar á undan. Ég skil upp að vissu marki að það hafi ekki litið þannig út í augum þeirra sem áður hafa sótt námskeiðin - til dæmis sáum við vægt dæmi á sunnudag þegar annar þátttakandi fór að gráta og ég hugsaði með mér "Jahá, svona hefur þetta litið út fyrir þeim!" nema bara að hann gekk mun lengra með mig heldur en verjanlegt er. Margir hafa spurt mig af hverju ég hafi ekki yfirgefið rýmið. Fyrst var svar mitt að ég hafi ekki vitað að það mætti (!) og vissulega vissi ég það ekki en við nánari íhugun þá þykir mér spurningin svipuð og að spyrja konu í ofbeldissambandi af hverju hún hafi ekki yfirgefið manninn fyrr. Ég svaf lítið um helgina og var með kvíðahnút í maganum eftir föstudaginn. Það hefði hjálpað mér og öðrum byrjendum mikið ef leikreglurnar hefðu legið skýrar fyrir (hann renndi vissulega yfir þær en ég meðtók þær ekki) og einnig að listi yfir gild rök væri skýr (það var mér engan veginn ljóst enda alls óvön allri heimspekilegri umræðu, hvað þá að ég þekkti hugtökin á ensku!). Því stóð ég og margir aðrir þarna höllum fæti frá upphafi. Helgin var ákaflega lærdómsrík og ég komst að því að ég gat vel tekið þátt í leiknum þegar ég vann með Isabelle Million (IM). Þau hjónin nota sömu aðferð í grunninn nema hvað IM gengur meira út frá kennslufræði (setur upp á töflu hvað séu gild rök, gengur úr skugga um að hugtökin séu sæmilega skýr, er vissulega ströng en ekki með neina sleggjudóma eða tilfinningapot) meðan OB hendir öllum út í djúpu laugina og er harðsvíraði viðskiptajöfurinn sem einskis svífst og hendir fram hvíts-gagnkynhneigðs-karlmanns-bröndurum til að létta stemmninguna. Hann mildaði sig vissulega eftir föstudaginn en náði aldrei að byggja upp traust í hópnum. Ég átta mig alveg á því að OB mun ekki breytast en það hefði hjálpað mér mikið að fá tíma til að fara yfir í rólegheitum og átta mig á tilfinningalega uppnáminu og vinna einhvern veginn úr því með hópnum á málefnalegan hátt, fá útskýringar, sjónarhorn annarra og í það heila úrvinnslu í stað þess skætings sem ég upplifði frá OB á sunnudaginn (það voru reyndar ekki allir eftir þá – þetta var í lokin). Mér þykir mikilvægt að hafa upplifað leikinn með IM líka. Hún gerði velflest eins og hann - hún var afar gagnrýnin, ströng og stýrði röggsamlega tilfinningum til hliðar, var jafnvel stuðandi á köflum - nema hvað hún bar virðingu fyrir manneskjunum sem tóku þátt. Hún sagði aldrei neitt lítilsvirðandi við neinn. Ég lærði heilmikið af henni og af helginni í heild sem var bæði áhugaverð, krefjandi og spennandi. Takk fyrir helgina allir þátttakendur og Isabelle. Við OB vil ég segja: FOKK OFBELDI!

  ReplyDelete
  Replies
  1. Þú segir: „Þegar samlíðan skortir er ofbeldi til staðar“. Það er bara ekki rétt, þetta er tvennt ólíkt. Ofbeldi er að valda öðrum sársauka, að gera eitthvað sem meiðir annan. Samlíðan er að finna til með öðrum, að finna þjáninug annarrar manneskju í sjálfum sér. En þó að maður finni ekki fyrir þjáningu annarrar manneskju þá er að alls ekki það sama og að valda henni sársauka. Þessi munur skiptir máli í daglegu lífi, til dæmis í starfi kennara. Kennari getur ekki leyft sér að gera allar tilfinningahræringar nemandans að sínum. Þvert á móti verður hann að skilja tilfinningar nemandans, kunna að lesa í þær. Svo dæmi sé tekið: barn segir við kennara: „Mér er svo illt í maganum“ þá er vandamálið örugglega ekki í maganum heldur annars staðar (það gæti verið námserfiðleikar, samskipti í vinahópnum, vandræði á heimilinu) og þá skiptir máli að gera ekki magaverkinn að sínum heldur að skilja hvað hann er merki um.

   Delete
 2. Fín samantekt. Ágætt að setja Óskar í samhengi. Samt ekki sammála að rökhyggja hans feli í sér hughyggju. Descartes og Spinoza til dæmis hafa sömu tröllatrú á rökhugsun en þeir segja samt ekki að allt sé hugur.

  ReplyDelete
 3. Takk fyrir kommentin!
  Ég vil fyrst taka þetta með hughyggjuna. Varðandi Spinöza þá held ég að betri skilgreining á honum en hughyggja væri einhyggja, en Descartes þá tvíhyggja. Ég held hins vegar að skv. kerfi Páls þá væru báðir þessi hugsuðir meiri hughyggjumenn en annað, og ég met Brenifier með í þann flokk.

  Varðandi að 'ofbeldi sé skortur á samlíðun' líkt og Bjarnheiður segir þá er ég sammála, þetta er ekki alveg fullnægjandi skilgreining. Ofbeldi er frekar eitthvað athæfi sem veldur sársauka og /eða skaða. Ég myndi telja að um ofbeldi sé að ræða þegar að þolandi upplifir það sem slíkt og þegar atferli manns sé augljóslega farið að valda sársauka sem er ekki inni í einhverju samhengi þar sem að þolandi hefur augljóslega samþykkt að verða fyrir sársauka (t.d. í boxhring) þá beri manni umsvifalaust að láta af öllu slíku athæfi. Ef þetta er rétt skilgreining þá flokkast hegðun Brenifier á köflum undir ofbeldi. Ég held hins vegar að hann aðhyllist einhvers konar hlutlægari skilning á ofbeldishugtakinu, þeas. að ákveðnar gjörðir og orð, t.d. hnífstungur og kannski niðurlægjandi tilvísun í kynþátt eða slíkt, flokkist sem ofbeldi. Þar sem ekki sé um slíkt að ræða í hans orðræðu þá geti maður ekki flokkað það sem hann geri sem ofbeldi. Hann getur þá vísað i hópinn og sagt, svona framkoma er ekki ofbeldi samkvæmt almennri skynsemi og þar með er ég ekki að fremja ofbeldi. Afturámóti verður að segja að þegar að viðbrögð einhvers eru augljóslega með þeim hætti að viðkomandi upplifir það sem fram fer sem ofbeldi þá er kominn skýr hlutlægur mælikvarði á það hvenær á að hætta.
  Kjarni málsins er líklega sá að reglurnar verða að vera mjög skýrar, ef að t.d. það er ljóst nákvæmlega hvað það merkir að vera 'observer', að það sé í lagi að fara, og að ekki verði hætt að hugsa þó að sterk tilfinningaleg viðbrögð komi fram, þá held ég að girt sé fyrir að hægt sé að líta á það sem fram fer sem ofbeldi, nokkuð sem á ekki að þurfa að vera hluti af svona samræðum að mínu mati. Svo þarf að meta hvort að þessi vandi sé það alvarlegur að maður vilji ekki taka þátt í svona verkefni eða ekki, en ég er klárlega á því að það sé þess virði að vera með.

  ReplyDelete