Þegar velt er upp valkostum og möguleikum varðandi nýjungar og breytingar í menntamálum og skólum er mikilvægt að skoða raunveruleg dæmi um starf sem er öðruvísi. Á Íslandi eru mest áberandi skólarnir sem starfa utan alfaraleiðar (ef svo má að orði komast) Waldorf skólarnir og svo Hjallastefnuskólarnir. Margt er áhugavert og virðingarvert í báðum þessum stefnum. Eitt atriði hefur þó alltaf farið í taugarnar á mér, og það er þessi hugmynd að banna leikföng. Svona breið og skýr höft yfir eitthvað ákveðið svið mannlegrar tilveru finnst mér afar dularfull og á bágt með að skilja þau rök sem þó eru sett fram hér. Þar sem þetta eru ekki fræðileg skrif ætla ég ekki að taka þetta atriði lengra hér - hefði þó gaman af athugasemdum og umræðum um þetta sérkennilega leikfangabann....
Í rannsóknum mínum og pælingum um víðnetið um fjölbreytilega og ólíka starfshætti þá virðist mér að ein hreyfing, byggð á ákveðnum skóla, sé einna áhugaverðust og áhrifaríkust. Þetta eru Sudbury Valley skólarnir. Slíkir skólar eru starfandi víða um heim og fræðast má um þá í þessu myndbandi og myndböndunum sem á eftir koma. Þessir skólar eru svokallaðir lýðræðisskólar (democratic schools) og byggja í grunninn á algjöru lýðræði og frelsi. Það er ekkert námsefni, engin stundaskrá, engin bjalla, engir kennarar.... bara hús, aðstaða, hópur nemenda og starfsmanna. Ef nemendur vilja sofa - þá sofa þeir - ef þeir vilja læra stærðfræði þá mynda þeir hóp og því er reddað, ef þeir vilja spila tölvuspil þá gera þeir það. Ákvarðinir um öll mál eru tekin á sameiningu, og um öll vafamál er dæmt í rétti sem skipaður er nemendum og starfsmönnum til jafns. Engin próf, einingar eða neitt slíkt. Þegar nemandi lýkur skóla þá semur hann kynningu um það sem hann hefur fengist við árin í skólanum og kynnir fyrir nefnd annarra nemenda og starfsmanna. Einn nemandi hefur í sögu skólans verið felldur við slíka athöfn.
Þessir skólar eru áhugaverðir fyrir að vera mjög skýr valkostur og fyrir það að þeir virðast vera í hægri sókn. Ekki er hægt að fullyrða um nákvæmlega hversu snjallt slíkt fyrirkomulag væri almennt í skólum, en hins vegar er spurning hvort hægt væri að finna milliveg. Líklega eru skólar víða hérna á Íslandi einmitt að leita sliks millivegar, og ég er á þvi að þar sem við erum komin með grunnstoð í námskrá sem heitir lýðræði og mannréttindi þurfum við að fara að taka skref í þessar áttir og spá í kost og löst á þessum aðferðum. Það er engin leið að yppta öxlum og hafa enga skoðun, þetta eru róttækir og allt allt öðruvísi skólar og lífshættir en við eigum að venjast - og sú bjartsýna og hlýja skoðun á eðli mannsins sem slíkt starf byggir á höfðar mjög sterkt til mín. Og leikföng eru ekki bönnuð (ekki heldur Facebook ef út í það er farið..... )
Þegar ég vann á Hjallastefnuleikskóla voru leikföng ekki bönnuð. En þeim var klárlega fækkað heilmikið þegar Hjallastefnan var tekin upp (áður var engin skiljanleg stefna í gangi). En það var fullt af trékubbum t.d. ...
ReplyDeleteEkki að það hafi mikil áhrif á skrifin um Sudbury dalinn.
Einmitt, þetta með leikföngin er útúrdúr. En hins vegar er það þannig að Waldorf skólarnir eru með svona e.k. Luddite viðhorf, lágmarka alla notkun á tækni og byggja á fremur undarlegu hugmyndakerfi - þó að það sé held ég ekki mjög afgerandi í almennu starfi og fúnksjón skólanna - Landakotsskóli byggir líka í grunninn á mjög undarlegu hugmyndakerfi sem hefur lítil áhrif á starf skólans að ég held.... Ekkert þessara kerfa, Hjallastefna, Waldorf eða Kaþólska eru þó sérstaklega lýðræðisleg í því að þau mæta nemandanum með talsvert langan lista af fyrirfram gefnum atriðum - t.d. ákveðið mataræði í Waldorf; kynjaskipting í Hjallastefnunni og ....já, ýmislegt í kaþólskunni - í Sudbury þá væri þetta allt opið til umræðu, og það er meginmunurinn.
ReplyDelete