Wednesday, October 29, 2025

Stakkaskipti 1-2 um framhaldsskólann

 Jæja, búinn að hlusta á þátt 1-2 af þessum mjög svo áhugaverðu þáttum um framhaldsskólastigið. Frábært og merkilegt framtak að fara svona djúpt og ítarlega í málefni menntakerfisins, alltaf mikilvægt og kannski sérstaklega núna. 

En. Að sjálfsögðu er ég með athugasemdir. 

Rétt að slá þann varnagla að hér eru bara komnir tveir þættir af sex, svo eflaust á eftir að taka á öllum þeim málum sem ég fjalla um hér að neðan síðar. Hins vegar finnst mér vera búið að slá ákveðin tón sem gefur í það minnsta nokkuð skýra vísbendingu um hvað kann að vera í vændum. 

Það sem mér finnst kannski helst að þáttunum tveimur og fer aðeins í mig, svo ég sé alveg heiðarlegur, er hversu neikvæður tónninn er. Hafandi starfað í framhaldsskóla í næstum því þrjá áratugi og fylgst með ýmsu því sem rætt er í þáttunum finnst mér óþarflega harður dómur kveðinn upp yfir okkur. Átta mig á að það neikvæða selur, en það er eins og þáttastjórnandi leiði viðmælendur áfram í átt að einhverju neikvæðu og nánast eins og hlakki í henni yfir hörmunginni. Öðru hvoru heyrist eitthvað um að kerfið hafi bæði "kosti og galla" en lítið er um að fyrri hluti jöfnunnar fái að líta dagsins ljós. 

Kannski er ég bara eitthvað nojaður. 

Aðalillmenni þeirrar sögu sem þarna er sögð er námskráin frá 2011 með því mikla frjálsræði (lausung og óráðsíu) sem henni fylgir. Látið er að því liggja að hún hafi einhvern veginn skollið á með brauki og bramli. Staðreyndin er að tilkoma hennar var löng og erfið og voru margir skólar sem streittust ötullega á móti og voru þvingaðir til hlýðni, það er að segja sérstaklega þar sem kemur að því að stytta námið. Styttingin er vitaskuld bara ein hlið þess máls, og frjálsræðið annað. Þriðja atriðið sem enn hefur ekki verið rætt er hvernig áfangakerfið með sínum einingum og uppbroti námsferla er þvingað upp á alla skóla og síðasta vígi "einingaleysis" féll endanlega, það er að segja MR, og ég held að þau hafi í raun borið töluverðan skaða af því að standa uppi fyrir fjölbreytileika í menntakerfinu en haft ósigur, og reyndar held ég að svipaða sögu megi segja af MH. Jákvæðar hliðar nýju námskrárinnar voru að það komu fram áhugaverð ný námsform, eins og lotukerfin í MS og FG (sem eru reyndar víða), og margvíslegar áhugaverðar námsbrautir eins og td. Nýsköpunar og listabrautin í Versló sem ég er mjög stoltur að hafa verið með í að skapa, en þar er komin ein helsta útungunarstöð fyrir íslenskar sviðslistir undanfarin ár að mínu viti. Án nýju námskrárinnar hefði hún td. aldrei orðið til. Fjarnámsflóran er líka mjög fjölbreytt á Íslandi, og fyrirbæri eins og Menntakólinn á Tröllaskaga er tam. merkilegt rannsóknarefni í því sambandi. Þessari flóknu og merkilegu atburðarás eru ekki gerð sérstaklega góð skil í þáttunum, ekki enn amk. Helst er að skilja af þeim að framhaldsskólar séu einhver einsleit súpa þar sem nemendur kaupa sér eins léttar einingar og þau geta til að blekkja sig inn í háskólanám sem þau ráða svo ekkert við. 

Áfangakerfið er sumsé gert alrátt með nýju námskránni og mér finnst í þáttunum eins og almenn afstaða allra þar sé að það sé náttúrulögmál, meðan í raun er það frekar sérkennilegt íslenskt fyrirbæri. Það hefur mikla kosti, en það hefur líka mikla galla, eins og ég hef nú reifað áður hér á þessum vettvangi. Gagnrýni Atla Harðarsonar í þáttunum á hæfniviðmið, sem ég held að sé mikilvæg og allrar athygli verð, á í raun enn betur við þegar kemur að einingum. Þegar verið er að velta fyrir sér hvað einhver kann í stærðfræði segir einingafjöldi líklega bara nánast ekki neitt, og eiginlega ekki heldur einingar/ einkunnum. Hæfniviðmiðakerfi og áfangakerfi eru kerfi sem taka yfir og við verðum þjónar taflna og excelskjala sem segja frekar lítið um raunverulegt innihald starfsins. Ég held samt að sá skaði sem Atli ætlar hæfniviðmiðakerfinu sé mjög yfirdrifinn - almennt í framhaldsskólum held ég að þessar hæfniviðmiðapælingar hafi ekki skilað sér mjög vel í starf hins almenna kennara sem ég held að sé nú bara vel. Skaðinn sem ég held að áfangakerfið, og sérstaklega þá í hinum svokölluðu áfangaskólum, valdi er að það dregur úr umhyggju kennara og skólans gagnvart nemendum sínum sem kemur niður á náminu - eins og ég hef reifað í öðrum bloggum. 

Ein megintilgáta þáttanna er að kennslu í stærðfræði og stem greinum hafi hnignað verulega. Ég leyfi mér aðeins að efast um að þarna hafi orðið einhver stórkostleg hnignun eða breyting. Mig grunar að áratugum saman hafi nemendur sem standa sig vel í þessum greinum fyrst og fremst komið úr nokkrum skólum og að á þessu hafi orðið lítil sem engin breyting. Þetta er fyrst og fremst félagslegt mál og tengist menningu, aðgangi að stuðningi heima fyrir o.s.frv. og lýtur nákvæmlega sömu lögmálum og í öðrum löndum. Nemendur sem komast inn í og ná prófum í þessum skólum hafa almennt mun betri stuðning heima fyrir og aðgang að félagsneti sem ekki býðst öðrum nemendum af öðrum stéttum, uppruna o.s.frv. Þetta er vitaskuld félagslegt óréttlæti, en það er ekki nýtt og skólarnir eru bara hluti af mun stærra kerfi sem þarf rótttækar ráðstafanir til að breyta. Og eins og bent er á í þáttunum, og hér er ég sammála, þá vantar almennileg gögn um þetta, en fyrst þarf að kortleggja og svo að bregðast við, en lausnir gætu innihaldið: 
-ókeypis hágæða námsgögn fyrir alla (vissulega mal sem er komið inn á í þáttunum)
-tryggja að kennarar allra greina séu vel menntaðir í þeim í öllum skólum - td. mætti bjóða öflugum kennurum með góða menntun hlunnindi og hærri laun fyrir að kenna í skólum sem þurfa búst
-öflugt samstarf milli skóla um deilingu á námsefni og framsæknum kennsluaðferðum
-stuðning við nemendur sem vilja komast í skóla sem þeim hentar
-ýmsar útfærslur á kvótakerfum, td. hugsa ég að hverfisskólafyrirkomulag stuðli að félagslegu réttlæti
-breyta áfangaskólum í bekkjarskóla, að bekkjarskólar séu ekki einungis aðgengilegir elítunemendum 

Eitt sem ég velti fyrir mér varðandi skort á nemendum með almennilega færni í stemgreinum er mikil aðsókn í þá skóla sem gera miklar kröfur og svo líka ótrúlegur fjöldi nemenda sem taka A-prófið til að komast í læknisfræði og síðan sá stóri hópur ungra íslendinga sem sækir læknisfræði nám úti um lönd.  Ég er náttúrulega ekki með tölfræði uppi á borðinu, en þarna fer held ég harðsvírað, -duglegt stemlið sem við munum örugglega búa að í framtíðinni. Ég velti líka aðeins fyrir mér þegar kemur að háskólastiginu (þetta er byggt á persónulegri upplifun en ekki djúprýndum gögnum) að þegar kemur að kennslu á háskólastiginu í þessum merkilegu greinum að þar væri hægt að bæta eitthvað. Ég held að þar snúist þetta ekki bara um að slá af kröfum, þó kannski þyrfti að byrja aðeins fyrr fyrir suma nemendur, heldur frekar að í náttúru- og verkfræðigreinum td. ríki ákveðin stemming sem er skyld einhverju sem kalla mætti "eitraða karlmennsku" sem er frekar svona kuldaleg og mannfjandsamleg, en kannski eru þetta fordómar og vonandi kemur önnur þáttaröð um háskólastigið. 

Síðasta atriðið sem ég reikna með að eigi eftir að koma þáttur um er hið stórsérkennilega fyrirbæri sem er félagslíf í íslenskum framhaldsskólum. Nemendafélögin standa í stórbissness í skemmtanahaldi (og sumir segja jafnvel sprúttsölu) og nemendur reka þessi batterí nánast óháð kennurum og stjórnendum skóla. Undanfarin ár hefur svo viðskiptalífið tengst þessari merkilegu starfsemi með ansi beinum hætti og fer þar minn ágæti skóli fremst í flokki. Þetta er mjög áhugavert dæmi - krakkar læra alveg rosalega af því að taka þátt í þessu, en hins vegar er líka mikil vettvangur klíkumyndunar og ákveðinnar frekar leiðinlegrar neyslumenningar líka einkenni á þessu - afar mikilvægt rannsóknarefni - og líkt og opna og frjálsa námskráin algjörlega úník íslenskt dæmi. 

Hlakka til að hlusta á meira og kannski finnið þið það hjá ykkur að skamma mig fyrir einhverja vitleysu sem ég fer með hér að ofan, það væri gaman! 

Þáttur eitt

Þáttur tvö




Sunday, August 31, 2025

Viðbrögð við pælingum prófessors

 Það sem hér fylgir er stutt ádrepa innblásinn af umræðu sem er upp hafin af Atla Harðarsyni með þessari grein á Vísi. Atli er ritfær og fjölmenntaður þungavigtarmaður.  Ólíkt Atla er ég ekki viss um íslenska menntakerfið sé á neinum sérstökum villgötum. Ég byggi það á þvi að þekkja ágætlega til á framhalds- og háskólastiginu og hafa nokkra innsýn í grunnskólana líka og aðeins í leikskólana. Að auki hef ég kynnst skólastarfi víða um Evrópu og almenn tilfinning mín er sú að um margt búum við mjög vel í þessum málaflokki, jafnvel þó engin séu samræmd prófin. Ég ætla í þessum greinarstúf að pæla í þessu út frá þremur hliðum, í fyrsta lagi kannski velta því upp að við séum mögulega í mjög góðum málum, í öðru lagi hliðartilgátu um vanda tengdan stærðfræði og raungreinakennslu og í síðasta lagi hvernig áfangakerfið sem við höfum leyft að taka yfir framhaldsskólkerfið og er að smita niður í grunnskóla sé hugsanlega rót hluta þess vanda sem Atli lýsir.

Ein leið til að komast að þeirri niðurstöðu að menntakerfið sé ónýtt sé að afurð þess, við fólkið í landinu sé ónýtt. Að íslenskir bakarar, píparar, verkfræðingar, tannlæknar, hárgreiðslufólk, heimspekingar og flugþjónar séu lélegri og verr í stakk búnir til að sinna sínum störfum en erlent fólk í sömu stöðum. Þetta er vitaskuld erfitt að fullrannsaka en mín almenna tilfinning er sú að svo sé ekki. Mögulega gætu einhverjir sagt að við séum í jafngóðum málum og við kannski erum þrátt fyrir lélegt skólakerfi, en það þykir mér hljóma sérkennilega.

Atla verður tíðrætt um vanda tengdan stærðfræði og raungreinakennslu. Ég ætla hérna að vera smá glannalegur, en það er líka allt í lagi og þá gott að fólk komi til andsvara. Mín tilfinning er sú, og nota bene ekki byggt á stífum rannsóknum heldur reynslu í starfi og bara almennt tengt skólum, að menning innan þessara greina, einkum í framhaldsskólum og háskólum einkennist af ákveðnum skorti á að ná því að miðla þekkingunni á hátt sem nær til stórs hluta fólks. Mikilvægasta verkefnið í þessu samhengi er að framleiða stærðfræði- og raungreinakennara sem hafa góð og djúp tök á þeirri hugsun sem þarf til að ná langt innan þessara fræða, en hafa líka góðan mannskilning, tök á fjölbreyttum kennsluaðferðum og ánægju af því að umgangast fjölbreytta flóru fólks. Gildismat sem hefur verið ríkjandi um nokkurt skeið sem segir að ef þú kannt að reikna hljótir þú að fara að vinna í banka og græða grilljón, fremur en að njóta þess að vinna í menntakerfinu og vera í fjölbreyttu og skapandi umhverfi með alskonar fólki og styðja börn til að komast í tengsl við töfraheim talna og forma er afar dapurlegur vitnisburður um andlegt gjaldþrot menningarinnar. Vitaskuld eiga kjör kennara að vera góð en ég held að vandi menntakerfisins sé birting vanda sem er mun djúpstæðari og víðfeðmari sem er fólgin í brengluðu verðmætamati.

Atli fjallar um hvernig nám í framhaldsskólum hefur orðið að söluvöru, og gerir því í skóna að hægt sé að kaupa einingar í fjarnámi, og að þar með sé það sem hefur verið þróað sem fjarnám við skóla á borð við Versló sé innantómt frat. Hafandi kennt fjarnámsáfanga um árabil finnst mér þetta nokkuð harður dómur. Það er ákveðinn vandi tengdur námsmati í fjarnámi og hefur sá vandi stóraukist með tilkomu gervigreindar. Hins vegar held ég að það fari mjög mikið og gott nám fram í mörgum flottum fjarnámsáföngum á Íslandi og það lýsi frekar neikvæðum mannskilningi að álykta að það sé almennt svo að nemendur svindli sig til prófs í fjarnámi.

Fjarnám á framhaldsskólastigi er mögulegt fyrir tilkomu áfangakerfisins og það er vissulega svo að það auðveldar að gera menntun að söluvöru. Þýðing á öllu námi yfir í dularfullar ”einingar” (sem hefur vissulega líka átt sér stað á háskólastigi) er nokkuð vafasamt mál að mörgu leyti. Áfangakerfið sem hefur tekið yfir allan framhaldsskólageirann á Íslandi (þrátt fyrir hetjulegan mótþróa frá miðbæ Reykjavíkur) er að mörgu leyti gott kerfi, en það hefur líka margvíslega galla. Það býður upp á mikinn fjölbreytileika (sem mér sýnist Atli ekki endilega vera hrifinn af, sem kemur mér smá á óvart), en þessi fjölbreytileiki hvílir líka á ákveðinni einsleitni. Það er mjög furðuleg hugmynd (eins og ég hef oft tjáð mig um áður) að það að kenna brauðbakstur, ensku, stærðfræði og útsaum sé alltaf best í 4 tíma á viku, í 14 vikur, einn kennari og 26 nemendur. Áfangakerfið er að mínu mati dæmi um það að kerfi sem hentar mjög vel fyrir búrókrata og Excel hefur náð að yfirtaka alla starfsemi skólanna og vinnur gegn því að hægt sé að kenna hluta eins og best er að kenna þá. Að auki er sú staðreynd að bekkjarkerfið hefur verið kerfisbundið brotið niður mjög neikvæði þróun og þar held ég að eins skýringin á ýmsum vandamálum ungmenna liggi, og þarna er líka einhver þjónkun og sjálfsþjónkun við okkur kennarana í gangi – vegna þess að ”agamál” séu miklu betri þegar kennt er samkvæmt áfangakerfi. Þarna er líka ákveðið vandamál tengt því að gengi eininganna verður mjög óljóst og kannski hægt að fallast á það með Atla að merking og innihald stúdensprófs sem er 200 einingar getur verið afar mismunandi, og ekki gefið að þó ég sé með X einingar í dönsku að ég geti haldið uppi samræðum á torgum Álaborgar. Ég myndi aldrei láta mér detta í hug að útrýma áfangakerfinu. Ég held að við þurfum samt endurskoðun á því, og ég myndi líka telja að það væri mjög spennandi kostur að stofna skóla sem byggði á annarri hugsun, t.d. á einhverju hliðstæðu við danska menntaskólakerfið.

Gagnrýni Atla á námskrár held ég að sé um margt gild. Þær eru ofhlaðnar og orðalag oft óljóst. Textar sem verða til í lýðræðislegum ferlum þar sem margir koma að og oft margir sem kannski þekkja ekki nógu vel til þess sem um ræðir verða oft svona. Það eru líka mjög háleit og óljós markmið í ýmsum trúarritum og spekiritum sem fólk túlkar og aðlagar lífi sínu, og þau geta veirð gagnleg og ógagnleg eftir hendinni. Ég held að námskrár séu meira svona eins og einhvers konar smurbrauðsborð sem getur hjálpað okkur að stilla starf af, en við ætlum ekki að það stýri okkur frá degi til dags, fremur en hinar ýmsu reglugerðir og lög um hitt og þetta þvælast fyrir daglegu lífi okkar á öðrum sviðum. Þannig að enn held ég að fréttir af heimsendi séu stórlega ýktar, en margir spennandi möguleikar til að gera áhugaverðar tilraunir og gera góða skóla enn betri.