Thursday, May 30, 2024

Námsmat og próf - próflaust Ísland 2030

Þessi póstur er innblásinn af þræði um meintan hóp sem starfar að því að útrýma prófum á Íslandi sem er nú líklega ekki til. Hér koma nokkrar óábyrgar hráar og hressar pælingar um þetta mál. 

Námsmat er mikilvægur, en þó hugsanlega ofmetinn, þáttur í starfi kennara og skólakerfa. Mín skoðun er mjög einlæglega sú að helsta markmið mitt í starfi er að mennta. Sem enskukennari hef ég það að leiðarhnoði að nemendur mínir fari frá mér örlítið betri í ensku en þau komu til mín, en líka kannski og vonandi með aðeins dýpri lífskilning og hafi tileinkað sér leiðir til að læra meira og útvíkka heimsýn sína, svona í stuttu máli kannski. 

Mér hefur alltaf leiðst próf og námsmat frekar mikið, en ég virði algjörlega að próf og mat af ýmsu tagi er hluti af menntunarferlinu. Þau geta verið þáttur í samstarfi kennara og nemenda á vegferð menntunarinnar, þau hvetja báða aðila í samstarfinu til að brýna ákveðna þætti námsins og hjálpa manni að átta sig á stöðu mála. Í áfangakerfinu sem er kerfið sem er mér tamast þá á þetta kannski fyrst og fremst við um skyndipróf, en í stórum greinum þar sem teknir eru margir áfangar gildir í rauninni svipað um lokapróf. Allt námsmatið í þessu kerfi eru vörður á leið - og í ákveðnum skilningi er það viss blekking að líta svo á að það sé einhver róttækur munur á símats og lokaprófsáföngum; áfangakerfið er í eðli sínu símatskerfi. Verulega leiðinleg aukaverkun af þessu er sú undarlega ranghugmynd að hvert snifsi sem kemur við sögu í náminu þurfi að "meta" og að nemendur gera aldrei neitt nema það sem "gildir" eitthvað.  Hversu marktækt matið er sem einhvers konar mæling á framgangi nemandans er svo spurning. Íslenskir kennarar eru í mjög djúpum skilningi beggja vegna borðsins, yfir því og undir.  

Ég held reyndar að kjarni málsins í hinum meinta prófahaturshópi sé deilan um samalræmdu prófin sem lauk fyrir nokkru með því að þau próf voru lögð niður. Þetta gerir að íslenska skólakerfið er mjög óvenjulegt á heimsvísu í því að hvorki grunnskóla né framhaldsskóla lýkur á einhverjum samræmdum landsprófum. Þetta gerir okkar kerfi mjög róttækt og áhugavert. 

Ég hef nú fengið reynslu af að kenna í kerfi með samræmdu lokaprófi, þeas. að kenna ensku til dansks stúdentsprófs. Ég hef líka reynslu af að vera nemandi íí A-level námi í breska skólakerfinu, sem lýkur líka með stórum samræmdum prófum. Kostur við slík kerfi er að það myndast smábandalag milli nemenda og kennara gagnvart hjallanum framundan, sem er prófið. Kennarinn getur verið gagnrýninn á fyrirkomulag prófsins, en sagt, tja svona er þetta bara. Kennarinn er líka með ákveðinn metnað fyrir gengi nemenda sinna í prófunum sem er öðruvísi en þegar maður býr prófið til sjálfur. Aðkoma ytri aðila að námsmatinu er líka til þess fallið að hækka metnaðarstig. Próf sem eru samin af sérfræðingum og hönnuð til að mæla ákveðna þekkingu verða svo náttúrulega líka óhjákvæmilega vandaðri en 100 próf samin af hverjum einasta kennara í viðkomandi grein. Helsta gagnrýni á samræmd próf er oft að þau leiði til að allir séu að gera það sama, en það þarf ekki endilega að vera svo: próf geta verið gerð þannig úr garði að þau endurspegli sjálfstæð vinnubrögð nemenda og kennara en mæli líka þekkingu. Annar kostur við prófin er líka ákveðinn hátíðleiki, það er ákveðin reisn yfir danska kerfinu þar sem þú stígur út úr síðasta prófinu og setur upp húfuna. En útfærsla á svona kerfi er ekki hent upp á einni nóttu og ef þetta á að vera vel gert þarf að setja mikla vinnu og mikla fjármuni í það, vinna og fjármunir sem ég myndi hiklaust telja að frá menntunarsjónarmiði sé betur varið í annað. 

Ég held að við séum á mjög góðu róli að mörgu leyti í íslenska skólakerfinu og ég myndi ekki vilja endurvekja samræmdu prófin í þeirri mynd sem þau voru. Ég held hins vegar að það gæti verið mjög áhugavert að hækka metnaðarstigið í námsmati í framhaldsskólum og einn fídus í því gæti verið aukið samstarf milli skóla, td. þannig að lokaprófið í tiltekinni grein í Versló væri samið og framkvæmt af kennurum úr FB og sett upp einhver svona keðja - ekkert endilega alltaf, en stundum, td. dregnar út 2 greinar og X margir skólar sem ættu að vinna saman að namsmati árlega.... 

Leiðin sem væri áhugaverðust að mínu mati hafandi skrifað allt þetta hér að ofan væri einfaldlega að hætta einkunnagjöf eins og hún er núna, bara útskrifa fólk eftir að hafa dvalið í skóla um skeið með stúdentspróf og treysta því áfram. það væri hægt að veita viðurkenningar fyrir einvherja mjög töff hluti sem einhver hefði gert eða eitthvað, en kannski jafnvel óþarfi. Leiðin til að falla í slíku kerfi væri einfaldlega eins og í vinnu, ef þú sinnir ekki starfinu, mætir ekki eða ert með leiðindi ertu bara látin fara.