Sunday, November 15, 2020

Harry Potter í Versló - pælingar með þættinum Kynning - á brautarpallinum


Nú er komið í loftið hlaðvarpið um Harry Potter og ævintýri hans í Versló. Ég setti alla seríuna í loftið í einu, og þannig getur fólk hlustað í þeirri röð sem það vill og á þá þætti sem það vill. Ég ætla að setja inn nokkra bloggpósta sem fylgja hverjum þætti úr hlaði, svona með einhverjum hráum og hressum pælingum um hvern þátt. 

Fyrsti þátturinn er að uppistöðu til samtal mitt og Helgu sem kennir námskeiðið með mér. Það er mikilvægt að þó að ég hafi búið þetta hlaðvarp til þá er ég ekki að eigna mér áfangann, hann er okkar samstarfsverkefni. Það er líka kannski áhugavert í þessu samhengi að þeir sem hafa fylgst aðeins með mér á vettvangi skólamálaumræðunnar er að ég hef (mjög) ákveðnar efasemdir um áfangakerfið, og ég stend við þær. Hins vegar er eitt fyrirbæri sem ég tel mjög jákvætt í áfangakerfinu, en það er einmitt valáfanginn sem Harry Potter áfanginn er dæmi um. Áfangahönnun er náttúrulega listgrein, og það má eiginlega segja að þetta hlaðvarp sé ákveðinn spuni í kringum þá pælingu. Mér finnst valáfanginn bjóða upp á að prófa sig áfram með óvenjuleg viðfangsefni, spennandi aðferðir og ýmsa nýstárlega hluti. Hugmyndir sem kvikna í valáföngum smita oft útfrá sér í aðra áfanga.... Jafnframt eru valáfangar fyrirbæri sem opnar fyrir ákveðna samkeppni milli kennara og greina, sem stundum hefur skemmtilegar og skondnar hliðar.

Annað sem valáfangar bjóða upp á er samstarf milli kennara, innan greina og þvert á greinar. Það er reyndar áhugavert og rannsóknarefni í sjálfu sér hversu lítið kennarar á framhaldsskólastigi vinna saman, en undantekningarnar er einmitt helst að finna í valáföngum. Samstarfið við Helgu i mótun og þróun þessa áfanga hefur verið alveg frábært, reyndar hefur það haft þær afleiðingar að auk þess að kenna þennan áfanga saman höfum við líka kennt saman einum bekk í "venjulegum" áfanga og það hefur nú líka bara gengið svona ljómandi vel! Ég vil endilega benda öllum áhugasömum um kennslu og svo líka um Harry Potter til að ljá hlaðvarpinu mínu eyra!  


Hér er linkur til að hlusta á þáttinn: https://open.spotify.com/episode/0mbkV2EuMjXoLaaZN3eZA0