Í Kastljósi 20. juní var viðtal við Andreas Scleicher nokkurn, heilann á bakvið PISA rannsóknir OECD. Viðtalið var mjög fróðlegt, Sigríður Hagalín Björnsdóttir spurði góðra spurninga, þau tala mjög fallega ensku og málflutningurinn balanseraður og áhugaverður.
Eitthvað hefur verið um viðbrögð við viðtalinu, jákvæð og neikvæð eins og gengur. Eitthvað er um að fólk detti í vörn og geri lítið úr Schleicher, jafnvel fyrir þær sakir að vera þjóðverji, sem er nú nokkuð þunnur málflutningur. Minnir þetta mig örlítið á þegar útlendingar skildu ekki sérstöðu íslenska víkingahagkerfisins á árabilinu 2006-2007...
Kjarninn sem ég held að við ættum að taka út úr viðtalinu er mikilvægi starfs okkar kennaranna, fagmennska okkar og framsækni. Það sem verið er að bauka inn í skólastofunum skiptir máli. Schleicher bendir á að ekki sé endilega æskilegt að útvista ákveðnum þáttum starfsins til annarra sérfræðinga - heildstæð umhyggja og áhugi kennara á nemendum sínum varðar miklu. Þetta er að vísu ekki alveg einfalt mál og tengist kennaramenntun og skipulagi náms og skóla. Ég skil þetta á þann veg að námsárangur nemenda byggi ekki eingöngu á þröngum fókus hjá kennurum á fögin sín, heldur sé sú hugmynd að heildstæð vitund um nemandann, námslega, félagslega og mögulega andlega sé afgerandi .... hér gæti verið ákveðin krítík á það sem ég hef annars staðar nefnt yfirferðarblæti sem er ekki alveg óþekkt vandamál, allavega í framhaldsskólum.
Virðing almennt í samfélaginu fyrir starfi okkar er líka ákaflega mikilvægt atriði, og þá kemur sjálfsvirðing mjög sterk inn, og jafnframt stolt af því að tilheyra stéttinni í heild sinni - og slíkt stolt á að fara þvert á skólastig, þröng upphafning eins hluta kerfisins á kostnað annarra er mjög óæskileg að mínu viti.
Eina atriðið sem ég er alveg ósammála Schleicher um eru vangaveltur um að þarfi að sinna bráðgerum nemendum betur. Ég hef margháttaða reynslu af þessu mengi fólks, hef kennt mörgum slíkum og flokkaðist mögulega sem slíkur á fyrri hluta skólagöngu minnar, þó ég gerist seinfærari með árunum. Ég held að það þurfi engar sérstakar ráðstafanir, þessir nemendur þurfa bara eins og aðrir góða og umhyggjasama kennara - ef þeir þurfa frekari útrás fyrir ofvaxna vitsmuni þá fara þeir bara á stúfana og forrita nýja tölvuleiki, lesa Dostojevskí, læra Esperanto eða eitthvað annað stuð í frítíma sínum (ég las Dostojevskí, og við félagarnir bjuggum til borðspil.... ). Ég held að bráðgerum nemendum sé enginn sérstakur greiði gerður með því að taka þá út fyrir sviga. Stundum dettur mér í hug að þeir sem eru mikið í svona pælingum telji sjálfa sig hafa verið, eða hafa jafnvel verið, bráðgera, og ef þau hefðu fengið þetta extra dæmi þá væru þau Marie Curie eða Einstein, veit ekki ....
Mælingar á borð við PISA eru að sjálfsögðu umdeilanlegar, en þegar við fáum almennilega athygli og umræðu eigum við að fagna því og nota tækifærið til hugsa okkar gang, takast á og hugsa hvað við getum gert til að skólarnir verði betri næsta vetur en þann síðasta. Ég ætla að einbeita mér að því að rækta betur samband mitt við nemendur, vinna í því að sinna samstarfi við kennarana í mínu fagi og öðrum fögum og tala starfið mitt upp hvar sem ég er og hvert sem ég fer. Kennsla rokkar: besta starf í heimi.