Las þessa öldungis stórskemmtilegu grein eftir Eddu Kjartansdóttur samkvæmt ábendingu frá Guðrúnu Geirsdóttur, sem er leiðbeinandi minn í mastersnámi. Ég er pínu svona, tja, óþekkur eins og Edda talar um og hef mikla tilhneigingu til að vilja skrifa á svoldið svona, tja, hráan og hressan hátt og halda sterkri persónulegri rödd, en þetta hefur á stundum rekist á akademísk viðmið. Allavega.
Ég er núna á stað í starfi og námi að ég hef ótrúlega mikið að gera og er svona frekar stressaður (ekkert fram úr hófi samt) - en ég fæ þá hugmynd úr lestri á grein Eddu að það að blogga ekki sé ekki rétt viðbragð og að með því að koma hérna frá mér hráum og hressum texta í svona smá gusum geti ég náð ákveðnum fókus bæði sem kennari og meistaranemi. Pæling.
Jæja, það eru nokkrir hlutir sem plaga kennara í starfi þeirra, og ég finn vel fyrir þeim á eigin anda núna. Tvennt verður tekið fyrir hér.
1) Yfirferð á verkefnum og ritgerðum. Ég er núna í miðju kafi að fara yfir hauga af ritgerðum í Ens103 og svo í Ens503. Þetta er mikil vinna, á köflum ekki óskemmtileg, en býsna krefjandi varðandi einbeitingu og aðferðafræði. Ég er núna í fyrsta skipti á ævinni að fara alfarið rafrænt yfir ritgerðir, og ég er ekki að nota Track Changes í Word. Sú aðferð er reyndar mjög góð, en, nýja leikfangið sem við erum komin með sem heitir Turn-it-in gerir yfirferðina (að mínu mati) mun þægilegri. Í fyrsta lagi þá tékkar forritið allan ritstuld af (mikill kostur), en í annan stað bíður það upp á mjög þægilegar leiðir til að setja inn athugasemdir og býður upp á að setja ínn matskerfi sem maður notar til að gefa einkunn í beinni útsendingu. Nemendur hafa svo aðgang að yfirferð um leið og henni er lokið. Það tekur langan tíma að fara yfir 110 ritgerðir, en hér er tæknin mjög hjálpleg og mæli ég eindregið með að nota svona græjur - Word og Excel ef ekki býðst Turn-it-in. Ég vil svo nefna líka að ég hef ákveðna mínímalíska sýn á yfirferð - benda nemendum á það sem betur má fara, en ekki setja á langar tölur og missa sig í nákvæmninni. Ég velti líka fyrir mér hvort við séum þegar í framhaldsskólanum að setja fólki of þröngar skorður með því að setja inn strangar formkröfur (sbr. hænuna og spurningamerkið) , eða hvort að það sé mikilvægt að negla formin niður áður en fólki er sleppt lausu. Ég hallast að því að vera frjálsari og gefa tauminn lausari, og geri það t.d. í fjarnámsnámskeiðunum mínum, en er að miklu leyti algjörlega einn í eyðimörkinni með slík viðhorf þar sem ég vinn svona frá degi til dags....
2) Fundir. Já, þeir eru unaður. Viðfangsefni meistararitgerðar minnar áætlaðrar er lýðræði. Ég beini þar sjónum m.a. að svokölluðu rökræðulýðræði. Nú er mín reynsla af fundum og samskiptum á hinum ýmsu vettvöngum því miður sú að rökræðan lúti mjög í lægra haldi fyrir örðum formum. Mjög algengur varíantur er það sem kalla mætti tilkynninga og tilskipana samkoma, þar sem hópi fólks er tilkynnt að þetta og hitt hafi verið ákveðið og girt fyrir að spurt sé eða hnýtt í ákvarðanir með því að byrja á að segja að 'þetta verður stuttur fundur' og fundurinn þá hafður í lok vinnudags. Því miður er það svo þannig að þar sem opnað er fyrir umræður fara þær út í mein- og gífuryrði þar sem samskiptin breytast í blammeringar og þegar verst lætur í persónulegar svívirðingar. Þessi síðari gerð er óalgengari, en ég hef þó upplifað eitthvað í þessa veru ótrúlega oft undanfarið - og þetta eru fundir á vettvöngum þeirra sem eiga að vera að leiða æskulýðin inn í rökræðulýðræði framtíðarinnar. Úff.
Niðurstaða mín er sú að yfirferðarmálin séu í farsælli farvegi en fundirnir og við skyldum hætta að funda og einbeita okkur að yfirferð. Nei. Niðurstaða mín er sú að það þurfi strax að efla af miklum móð þjálfun í rökræðum og almennilegum samskiptaháttum í hópum, meðal barna, unglinga, háskólanema, kennara, háskólamanna o.s.frv. Hagnýt heimspeki getur orðið hluti slíkrar viðleitni, en jafnframt held ég að það þurfi líka að hugsa um einhverjir leiðir til að fólk nái tökum á eigin egói og nái að skilja það eftir við dyr fundarsalarins, eða að hemja bólgutendensa þess og ofurviðkvæmni meðan á fundum stendur. Benda má t.d. á búddíska hugleiðslu og andlegar æfingar stóumanna í þessu samhengi, algjörlega djóklaust.