Sunday, May 6, 2012

Guðrún Halldórsdóttir

Guðrún Halldórsdóttir, sú stórmerkilega skólamanneskja er dáin. Ég vann af og á hjá henni í all mörg ár í Námsflokkunum og verður hún að teljast stór áhrifavaldur í afstöðu minni til menntunar og lífsins almennt. Skrifborð Guðrúnar þar sem rétt glitti í hana gegnum alskyns skjalabunka, matarumbúðir (og fyrstu ár reykjarmökk, sem þó stafaði hvorki frá henni né mér) og var heili og hjarta skólans í senn. Guðrún gat verið að rýna í skjöl og pæla í einhverjum ráðum til að eiga við hina aðskildustu embættisaðila þegar hún skyndilega bryddaði upp á umræðum um tilgang lífsins, gildi ólíkra uppeldis- eða matreiðsluaðferða; og samstundis urðu allir viðstaddir (skrifstofufólk, kennarar, nemendur, húsverðir) þátttakendur í einhverjum stórmerkilegum samræðum (sem lauk svo jafnskyndilega og þær hófust án niðurstöðu, enda niðurstöður ofmetnar).

Guðrún var mikilvirkur jafnréttissinni og óbilandi í trú sinni á réttlátara þjóðfélag, hvort sem það tengdist jafnrétti kynjanna eða réttindum verkafólks, og ég held að saga hennar geti verið mikill innblástur öllum þeim sem glíma við skrifblindu, hún lét það smávandamál sko aldeilis ekki stöðva sig!

Það sem upp úr stendur í minningum mínum af Námsflokkunum er sú ótrúlega og fjölbreytilega reynsla af magnaðri mannlífsflóru þar sem allir voru jafnir (nema að vísu þá réð Guðrún nú, svona mestan partinn .... ) og allir voru með það á hreinu að starfið sem við unnum var gott starf (þó okkur sumum fyndist kannski að stundum mætti hagræða einu og öðru í leiðunum sem valdar voru.... ) - þar sem aldrei var langt í hláturinn og þar sem maður gat aldrei verið alveg viss um hvað kæmi næst.

Heimurinn er alveg örugglega betri staður fyrir það að hafa átt Guðrúnu, ég er alveg örugglega betri maður fyrir að hafa verið svo lánsamur að kynnast henni. Blessuð sé minning hennar.