Saturday, December 3, 2011

Menntabyltingu - núna!

Ég var að hlusta á meirihluta fyrirlestrana á þessum merkilega viðburði, TEDX í London. Ken Robinson er þarna í lykilhlutverki og hefur inngangs- og útgangs erindi. Inngangurinn hans er reyndar að mestu endurunnið efni, en útgangurinn er nokkuð magnaður. Grunntónninn í þessum erindum er að auka hlut sköpunar í menntun, draga úr samræmingu, draga úr prófum, einstaklingsbundið nám.... Ken er með nýja skilgreiningu á 'Back to Basics' sem gengur ekki út á að auka stærðfræðikennslu eða lestrarnám heldur að leggja fyrst og fremst áherslu á grunn menntunar sem er samband kennara og nemenda - allt námsefni, próf, hús o.s.frv. eru aukafarangur. Ég fíla þessa pælingu hans mjög, og held að mjög stór hluti af því sem starf kennara felur í sér í dag fjarlægi okkur frá þessu grunnsambandi - þó að vitaskuld sé það aðalatriðið og það sem gerir kennarastarfið að besta starfi í heimi.s

Fyrst hlustaði ég á Jude Kelly sem fjallar um hlutverki menningarstofnanna í menntun. Hún rekur hvernig baráttukonur fyrir því að menning sé aðgengileg öllum hafi markað sögu Bretlands og er það mjög fróðlegt og flott hvernig hún setur sig í samhengi við þessa sögu. Hún höfðar til áhorfenda sem frumkvöðla og telur að henni sé mögulegt að breyta og útvíkka hlutverk listamiðstöðvarinnar sem hún stýrir vegna þess hvernig þessir forverar hennar hafa staðið sig. Eitt af því sem menntabyltingin felur í sér er barátta fyrir félagslegu réttlæti í aðgangi að menntun og menningu - menntun sem varðar veginn til réttlátara samfélags og jafnara í stað þess að festa núverandi valdakerfi enn betur í sessi. Annað er að menntun felst í samstarfi allra í hverju samfélagi og að söfn og aðrar slíkar stofnanir eigi að miða að menntun barna og ungmenna í mun ríkari mæli en raunin er núna.

Svo kíkti ég á Nick Stanhope, sem er maðurinn á bakvið snilldarverkefnið Historypin. Mér finnst það reyndar ótrúlega dónalegt hvernig hann byrjar fyrirlesturinn, en fyrirgef það þegar maður kemst inn í hvað verkefnið hans gengur út á. Algjör brilljans. Þetta gengur sem sagt út á það að á interaktívu korti á netinu getur fólk sett inn myndir og myndskeið tengd ákveðnum stöðum. Þannig verður sagan lifandi í kortinu, tímavídd og persónuleika er bætt við og þarna er á ferðinni fyrirbæri sem verður hreinræktuð sköpun veraldarinnar. Ég velti fyrir mér hvaða brjálæðislegu möguleikar eru í þessu fyrir sögukennslu og landafræði, menningarlegan skilning o.s.frv. Þessi gaur er að ná í ákveðinn kjarna þess sem internetið er og er að verða. Ég sá að það er lítið komið inn frá Íslandi en það á eflaust eftir að aukast - nú er ég búinn að deila þessu á Facebook og ég er þegar farinn að sjá viðbrögð við því....

Annar álíka snillingur er Scott Snibbe en kjarninn í hans verki er samstarf hans við Björk um Biophiliu, sem ég hafði ekki hugmynd um þegar ég horfði á fyrirlesturinn. Þetta prójekt sannfærir mig um það sem ég hafði ákveðin grun um að í raun sé Björk einn merkasti hugsuður íslenskur í samtímanum - og þessi samruni tónlistarpælinga, vísinda og nýtingu á nýjum möguleikum í tölvutækni þá verður þetta að teljast algjörlega osomm. Hann fjallar ekki um samstarf Bjarkar við skóla og börn í Reykjavík í vetur en án alls vafa verður að telja að í þessu felist ótrúlegir möguleikar.

Síðasta erindið sem ég ætla að nefna hér er Adam Roberts - og er það dæmi um það að þessi viðburður er áhugaverður fyrir það að nokkrir af málshefjendum eru kornungir. Lykilboðskapur hans er mikilvægi þess að viðhalda gagnrýninni spurn barna og að skólamenntun einkennist um of af því að drepa þessi fyrirbæri niður með ofuráherslu á hlýðni og að allir feti sömu braut með tilheyrandi einsleitni í hugsun og hegðun. Hann hefur verið í pólítískri baráttu ungs fólks og tekið þátt í margskonar félagsstarfi og verið studdur til gagnrýni heima fyrir og í skóla, en bendir á að þetta hafi verið hans mikla lán sem margir aðrir njóti ekki. Engin spurning er að þetta er mikilvæg ábending og við sem erum að bauka í að koma á aukinni áherslu á heimspeki í skólum hljótum að taka undir hvert orð í máli hans.

Ken Robinson er svo með útgangsfyrirlestur þar sem aðalboðskapur hans er að margt af því sem hefur tilheyrt jaðar og framsækinni menntastefnu eigi að stefna inn í miðjuna. Lærdómar sem draga má af pælingum hjá þessu fólki er
-meira opið frjálst og skapand starf
-meira af heimspeki og gagnrýninni umræðu (og hluti af því þjálfun í að koma fram og hald svona TED fyrilestra :-)
-aukið og frjálsaara aðgengi að upplýsingatækni
-aukið samstarf við ýmsa aðila í nærumhverfi skóla

... ég held að í þeirri deiglu sem fylgir upptöku nýrra laga og námskráa þurfum við skólafólk að leggja eyrun við allt gott af þessu tagi á alnetinu og vona að þetta verði ykkur til gleðiauka og andlegrar næringar....